Unglingar eru mjög fljótir að átta sig á hvað skiptir raunverulega máli í skólanum. Þeir sjá lítinn tilgang í að gera eitthvað sem skiptir engu máli – sem sagt hefur engin áhrif á einkunnina þeirra. Til hvers í ósköpunum ættu þeir að leggja eitthvað aukalega á sig, fyrir eitthvað sem hefur engin bein áhrif á einkunnina þeirra?
Ég hef heyrt frá mörgum foreldrum, sérstaklega drengja, að þér séu búnir að finna það út að maður þarf ekki að leggja neitt á sig í 8. og 9. bekk, það eina sem skiptir máli er að standa sig vel í 10. bekk. Hvers vegna skyldi þeim finnast það?
Stærsti þátturinn er sá að, skv. aðalnámskránni þá er hæfniviðmiðum skipt niður á yngsta stig, miðstig og unglingastig. Þegar nemendur byrja á unglingastigi (í 8. bekk), þá fara þeir inn í hæfni flokk sem þeir þurfa að hafa náð tökum á við lok 10. bekkjar. Ef nemendum gengur illa í ákveðinni hæfni í 8. og 9. bekk, þá eiga þeir að geta fengið að bæta sig áður en þeir klára 10. bekkinn.
Sumir skólar eru farnir að ganga svo langt að gefa enga einkunn við lok 8. bekkjar og við lok 9. bekkjar, heldur fá nemendur bara að vita við lok 10. bekkjar hvernig þeir standa miðað við hæfniviðmið í aðalnámskrá. Þá er allt of seint að bregðast við.
Nemendur þurfa áskoranir og nemendur þurfa minni hæfniviðmið til að vinna eftir. Þeir þurfa að geta séð nákvæmlega hvar þeir standa námslega séð og hvað þeir þurfa að gera til að bæta sig. Þeir þurfa síðan að fá hvatningu og aðhald til þess að bæta sig. Ef nemendur (og foreldrar) geta ekki séð hvernig þeir standa, þá geta nemendur ekki bætt sig – jafnvel þótt þeim langi til þess.
Að mínu mati þá er allt of frjálsleg kennsla á unglingastigi í stærðfræði. Ég myndi vilja sjá námsefnið í fastara formi, þannig að allir nemendur t.d. í 8. bekk, ættu að hafa náð ákveðinni hæfni við lok 8. bekkjar.
Á Menntaþingi sem haldið var nýlega komu tveir ungir drengir og héldu smá ræðu. Þeirra beiðni til þeirra sem stjórna menntamálum var sú að samræma meira nám. Annar þeirra hafði þurft að skipta um skóla nokkrum sinnum og það var mjög erfitt að gera það, af því að hver skóli er að ákveða hvað hann kennir, í hvaða röð og á hvaða tíma.
Á meðan við erum að byggja upp hrunið menntakerfi, þá er nauðsynlegt að einfalda hlutina, sjá til þess að skólar séu að fara yfir sama efni á sama skólaári. Að því sögðu, þá þarf einnig að gera ráð fyrir að þeir nemendur sem þurfa meiri áskoranir geti farið hraðar yfir, en tryggja það að það sé einhver lágmarks hæfni sem allir nemendur hafa náð við lok hvers skólaárs.
Eftir nokkur ár, þegar nýr matsferill verður tilbúinn, þá ættu foreldrar að gera farið fram á að fá stöðu hjá sínu barni miðað við aldur. Þá fyrst verður hægt að líta á unglingastigið sem þrjú aðskilin ár og hægt að meta stöðuna og bregðast við ef unglingurinn þarf meiri stuðning við námið.