Í vikunni sem leið var fyrirlestur á vegum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands þar sem verið var að greina stöðu læsis í stærðfræði úr nýjustu PISA könnuninni. Mér finnst æðislegt og nauðsynlegt að verið sé að kanna áhuga og viðhorf nemenda til stærðfræði í þessari könnun og einnig að verið sé að skoða hvort tengsl séu milli viðhorfs nemenda til stærðfræði og svo gengi þeirra í stærðfræði.
Ég ætla að taka fyrir tvær fullyrðingar úr þessari könnun sem lagðar voru fyrir nemendur sem tengjast áhuga og viðhorfi íslenskra nemenda til stærðfræði og velta fyrir mér hvaða þýðingu og tækifæri þessar fullyrðingar hafa fyrir stærðfræðinám.
Fyrri fullyrðingin er „Stærðfræði er ein af uppáhaldsgreinunum mínum“.
Mér fannst svo gaman að sjá að 50% íslenskra nemenda voru sammála eða mjög sammála þessari fullyrðingu. Það sem meira er, Ísland var í fyrsta sæti (hæsta meðaltalið) hvað þetta varðar. Þess má geta að meðaltal OECD ríkjanna var 39% og flest Norðurlöndin voru með 31-33%.
Ég hafði alltaf haft þá tilfinningunni að stærðfræði væri vinsælasta, óvinsæla fagið. En eftir að hafa séð þessa niðurstöðu þá veit ég að allavega helmingur íslenskra nemenda finnst stærðfræði bara ansi skemmtileg, sem er virkilega ánægjulegt og jákvætt fyrir stærðfræðinám!
Seinni fullyrðingin sem vakti athygli mína og lögð var fyrir nemendur er fullyrðingin „Sumir eru bara ekki góðir í stærðfræði, sama hvað þeir leggja hart að sér við námið“.
Þessi fullyrðing er að gefa til kynna, að það að vera góður í stærðfræði sé einhver eiginleiki sem sé til staðar hjá nemendum eða ekki. En þetta er einmitt ein algeng mýta um stærðfræði. Niðurstaðan við þessari fullyrðingu var að 57% íslenskra nemenda eru því miður sammála þessari fullyrðingu, sem er mikið áhyggjuefni. Þetta er þó nálægt meðaltalinu og því miður algeng afstaða nemenda í hinum löndunum.
Eins og frægt er, þá komu íslenskir nemendur mjög illa út úr stærðfræðihlutanum á PISA, en skoðað var samhengi milli þess að vera ósammála þessari fullyrðingu og svo árangurs í stærðfræðihlutanum. Niðurstaðan var sú, að það voru mjög skýr tengsl milli þess að vera ósammála ofangreindri fullyrðingu og að ganga mjög vel í stærðfræðihlutanum í PISA könnuninni.
Það skiptir sem sagt máli að nemendur viti það, að það fæðist enginn góður í stærðfræði og allir geta orðið góðir í stærðfræði ef þeir eru tilbúnir að leggja á sig vinnuna við að bæta sig.
Þetta er það sem ég hef alltaf lagt svo mikla áherslu á, sem er að nemendur verða að læra að tileinka sér vaxandi hugarfar (e. growth mindset) í stærðfræði sem gengur í stórum dráttum út á að trúa því innst inni að því meira sem þeir leggja á sig því meiri árangri ná þeir og það sé ekkert sem þeir geta ekki lært – en það getur tekið tíma. Nemendur sem ná að tileinka sér þetta viðhorf, munu ná miklum og góðum árangri í stærðfræði.
Hver er þá niðurstaðan? Jú, við getum verið ánægð með að helmingur íslenskra nemenda finnst stærðfræði vera eitt af sínum uppáhalds greinum. Einnig að það eru skýr tengsl milli þess að hafa vaxandi hugarfar þegar kemur að stærðfærði og að ganga vel í stærðfræði. Það ætti því að mínu mati að leggja meiri áherslu að vinna með viðhorf nemenda í kennslustundum.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is