Þegar nemendur eru komnir í framhaldsskóla, þá eru þeir búnir að byggja upp ákveðnar venjur í grunnskóla þegar kemur að stærðfræði. Í stærðfræðistofu eiga öll borð að snúa þannig að nemendur sjái kennaratöfluna og nemendur eiga að vera tilbúnir að glósa og hlusta á það sem kennarinn segir og æfa sig svo sjálf við að leysa dæmin í sætunum.
Reynsla mín að kenna þessum aldurshópi er sú, að nemendur vilja helst ekki hugsa mikið. Ef ég spjalla við nemanda um ákveðið efni og enda svo á því að spyrja nemandann fleiri spurninga, þá fæ ég oft að heyra “segðu mér bara hvað ég á að gera”. Suma nemendur langar hreinlega ekki að skilja hvað þeir eiga að gera, þeim langar bara að herma eftir aðferðum. Ástæðan fyrir því er líklega sú að nemendur eru vanir því að vera mataðir af því sem þeir eiga að gera.
Annað sem er algengt fyrir nemendur á þessum aldri, er að þeir halda sumir að stærðfræði snúist um að fá rétt svar. En svarið er sjaldnast aðalatriðið, sérstaklega í stórum dæmum. Stóra markmiðið er að skilja verkefnið og búta það niður og nota stærðfræðilega réttar aðgerðir til að komast að niðurstöðu. Á þeirri löngu leið gæti leynst ein fljótfærnisvilla, sem skiptir ekki öllu máli. Sumir nemendur byrja meir að segja á að kíkja á svarið í bókinni og “bulla” svo bara eitthvað og enda svo á að fá “rétt” svar og eru voðalega kátir með það.
Stærðfræðikennsla og námsmat hefur breyst mikið í grunnskólum síðustu ár. Því má gera ráð fyrir að viðhorf nemenda til stærðfræði sé að breytast. Fleiri nemendur sem eru núna í grunnskóla þurfa að hugsa meira en áður og fjölbreyttari kennsluaðferðir gera ráð fyrir að nemendur þurfi að skilja efnið meira en áður.
Það sem við sem foreldrar getum gert, til að fá nemendur til að leggja meiri áherslu á að skilja dæmin og hugsa meira, er að fá unglingana okkar til að tala meira upphátt um stærðfræði. Láta þá t.d. þá lýsa því munnlega hvað þeir séu að gera og ef þeir skilja ekki verkefnið að æfa sig í að skýra vel út hvað það er nákvæmlega sem þeir skilja ekki.
Hefur þú prófað að tala upphátt um stærðfræði við þinn ungling? Þú getur prófað að spyrja hann hvað hann sé að læra í stærðfræði í skólanum, beðið hann að sýna þér stærðfræðibókina og tala aðeins um það sem hann sé búinn að vera að gera.