Rannsóknir gefa til kynna að tímamörk í stærðfræðiprófum geti valdið stærðfræði kvíða (e. math anxiety). Stærðfræði kvíði getur síðan, eins og gefur að skilja, haft mjög neikvæð áhrif á viðhorf og árangur nemenda í stærðfræði.
Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að nemendur sem eiga að leysa sömu verkefni í stærðfræði, gengur mun betur með verkefnin ef þeir vinna þau án þess að vera undir tímapressu. Ástæðan fyrir því má finna í rannsóknum tengdum taugavísindum, en þær rannsóknir sýna að þeir nemendur sem upplifa mikið stress í prófum, eiga erfiðara með að sækja upplýsingar sem tengjast því að leysa vandamál (e. problem solving). Nemendur búa yfir þessum upplýsingum, en geta ekki sótt þær og nýtt þær undir miklu álagi.
Tímamörk á stærðfræðiprófum stangast á við stærðfræðinám eins og það ætti að vera. Stærðfræði á ekki að snúast um að vera fljótur að fatta og snöggur að leysa. En ef nemendur upplifa að þeir hafi ekki nægan tíma á stærðfræðiprófum, þá trúa þeir því innsti inni að þeir séu ekki góðir í stærðfræði.
Hvað er hægt að gera?
Það mikilvægasta að mínu mati er að tryggja það að allir nemendur hafi nægan tíma í stærðfræðiprófum. Það er t.d. hægt að gera með því að skipta prófunum upp í nokkra hluta og leyfa nemendum að takast á við fá krefjandi verkefni í einu.
Annað gott ráð er að kalla próf ekki próf heldur verkefni eða jafnvel rannsóknarverkefni. Það að eitthvað heiti rannsóknarverkefni sendir skilaboð til nemenda að þeir eigi að rannsaka dæmin, en ekki hugsa um að vera mjög snöggir að leysa dæmin.
Tímatakmörk á stöðluðum prófum er þekkt og til þess að það sé hægt að bera saman stöðluð próf (t.d. eins og gömlu góðu samræmdu prófin), þá er mikilvægt að hafa einhver tímatakmörk. Í þeim tilfellum væri hægt að kynna það fyrir nemendum og gera þeim grein fyrir að í þessu einstaka tilfelli séu tímatakmörk, en það sé ekki endilega vísbendingum um hversu góðir þeir séu í stærðfræði.
GRE, er eitt mjög þekkt staðlað próf sem notað er þegar sótt er um verkfræðitengt framhaldsnám í Bandarískum háskólum. Þetta próf, byggir á hraða, eins og mörg stöðluð próf. Lykillinn í þessum prófum er að æfa sig að taka þessi tilteknu próf. T.d. ef það birtist þríhyrningur á skjánum með ákveðnum tölum, þá læra nemendur hvað svarið við þeirri mynd á að vera. Það er enginn tími til að reikna það út. Það segir sig sjálft að svona próf eru ekki að gefa góða mynd af þekkingu nemenda til að leysa krefjandi verkefni, heldur er fyrst og fremst verið að kanna hvort að nemendur séu vel þjálfaðir í því að kunna utan að svör við stöðluðum spurningum.
Ég glímdi sjálf við mikinn prófkvíða og eflaust hefur sá kvíði byrjað með því að ég stressaðist við tilhugsunina að þurfa að leysa próf undir ákveðnum tímatakmörkunum. Ég áttaði mig eiginlega ekki á því að ég væri að glíma við mikinn prófkvíða fyrr en ég var komin í tölvunarfræði í HÍ (þá búin með MR og Kennaraháskólann). Ég var bara búin að sannfæra mig um að ég væri ekki sérstaklega góður námsmaður þar sem ég væri ekki góð í að taka próf og svona væri þetta bara.
Lykillinn fyrir mig að takast á við prófkvíðann var að fá aðstoð. Ég lærði ýmsar öndunaræfingar sem ég notaði í prófum til að minnka kvíða, ég lærði ýmsa námstæknin eins og að byrja á því að svara fyrst spurningum sem ég átti auðvelt með að svara og svo lærði ég ýmis trix til að vinna með heilann til að fá frekar hugmyndir í stað þess að lokast alveg.
En svo ég svari spurningunni, sem var í efni þessa pósts, þá finnst mér persónulega að það ættu almennt ekki að vera tímatakmörk í stærðfræðiprófum. Undantekningar á þeim eru stöðluð próf. Í þeim tilfellum þá á að gefa nemendum kost á að æfa sig að taka slík próf, enda eru þau próf að kanna hversu fljótir nemendur eru að hugsa.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is – með námskeið á netinu frá árinu 2013