Ef það er eitthvað sem okkur langar til að læra, þá getum við líklega fengið allar upplýsingar sem við þurfum frítt með því að leita á netinu eða fá lánaðar einhverjar bækur. En það að langa til að ná tökum á einhverju eða læra eitthvað, snýst yfirleitt ekki um aðgang að upplýsingunum. Það er nóg fyrir suma, en fyrir flesta þarf meira að koma til.
Þetta á líka við í skólakerfinu. Nemendur hafa þar aðgang að góðu kennsluefni og frábærum kennurum, en oft dugar það ekki til þess að allir nemendur nái tökum á efninu.
Ef ég flokka nemendur í stærðfræði í tvo flokka í tengslum við þetta, þá eru það nemendur sem finnst bara ekkert mál að læra stærðfræði annars vegar og hins vegar þeir sem þurfa aðeins meira…
Í fyrri hópnum eru nemendur sem eiga frekar auðvelt með að fylgja eftir efninu í stærðfræði. Stærðfræðibókin hentar þeim bara vel, því þeim hefur gengið vel í stærðfræði hingað til og kennarinn nær að útskýra efnið fyrir þeim þannig að þeir skilja það.
Í hinum hópnum eru nemendur sem þurfa meira en “þetta venjulega”. Yfirleitt eru þetta nemendur sem standa höllum fæti í stærðfræði. Kannski hafa þeir misst dampinn eitt skólaárið og skilja efnið því ekki alveg nógu vel. Það sem þessum hópi vantar er eitthvað sem er ekki tiltekið í aðalnámskrá grunnskólanna, enda er bara lögð þar áhersla á að tiltaka hvaða hæfni nemandi ætti að stefna að og síðan er ákveðið kennsluefni sem allir nemendur eru með til að vinna að því markmiði. En það sem þessum hópi nemenda vantar, er meiri hvatningu og aðhald og þeir þurfa líka að gera sér grein fyrir að þeir þurfa að vera tilbúnir að leggja á sig meiri vinnu en nemendur í hinum hópnum.
En hvað er til ráða? Ég ætla ekki að koma með tillögur sem tekur mörg ár að hrinda í framkvæmd og krefst breytingar á aðalnámskránni. En ég hef sjálf verið að kenna stærðfræði á unglingastigi í grunnskóla þar sem mér tókst að peppa heilan árgang sem var eftir á í stærðfræði, í að vilja, langa og vera tilbúinn að leggja meira á sig til að ná tökum á stærðfræði. Það gerði ég með því að búa til hvatningakerfi þar sem hver einasti nemandi vildi taka þátt í og dugði út skólaárið. Ef þú vilt lesa nánar um hvað ég gerði þá skrifaði ég stutta grein um það.
En til að flækja málin aðeins, þá getur of mikil hvatning haft neikvæð áhrif. Það er því mikilvægt að nemendur taki fyrst ábyrgð og ákvörðun um að ætla að ná tökum og vera tilbúnir að leggja á sig vinnuna – og veita þeim sem taka þá ákvörðun síðan aðhald og hvatningu við hæfi.
Ef unglingur er ekki spenntur fyrir að bæta sig í stærðfræði þá getur hvatning virkað ágætlega til að byrja með en, síðan fer hvatningin að hafa minni áhrif og hann þarf alltaf meiri hvatningu til að “nenna” að leggja meira á sig. Þess vegna skiptir mig miklu máli að unglingar samþykki að fara á námskeið hjá mér, því þó svo að ég sé með hvatningu og aðhald á námskeiðinu, þá virkar það einungis til lengri tíma ef unglingurinn hefur samþykkt að fara á námskeiðið.
Ertu með einhverjar reynslusögur sem þú vilt deila með mér sem tengjast stærðfræði eða námi á einhvern hátt? Ef svo er, þá máttu endilega senda mér póst með því að svara þessum pósti.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá https://staerdfraedi.is