fbpx

Að skilja er ekki nóg

Þegar nemendur eru að læra nýtt efni í stærðfræði, þá halda þeir oft að þeir kunni efnið, af því að þeir náðu að reikna nokkur dæmi rétt.

þekkingarblekking

Þetta er það sem ég hef þýtt sem þekkingarblekking (e. fluency illusion). Þekkingarblekking er þegar hugur okkar platar okkur til að halda að við vitum meira um eitthvað efni en við gerum í raun og veru.

Eins og ég sagði í byrjun, þá getur þetta átt sér stað þegar nemandi skoðar sýnidæmi, finnst hann skilja það vel, fer síðan strax yfir í að reikna dæmi og er stöðugt að herma eftir sýnidæminu en er ekki að leggja mikinn skilning í dæmið. Honum finnst dæmin nánast létt og er sannfærður um að hann kunni efnið af því hann er að endurtaka sama hlutinn aftur og aftur. En svo þegar hann sér þetta sama efni á prófi, þá kemur í ljós að hann kunni efnið ekki nægjanlega vel.

En hvað er þá trixið við að hætta að falla fyrir þekkingarblekkingunni?

Það er mjög einfalt. Fyrsta skrefið er að gera sér grein fyrir, að það að skilja eitthvað í stærðfræði er ekki sama og að vera búinn að ná tökum á efninu. Til að ná góðum tökum á ákveðnu efni í stærðfræði, eða kunna efnið, þá þarf nemandinn að þjálfa upp færni og ná að yfirfæra þennan skilning á flóknari dæmi og verkefni án þess að hafa önnur dæmi til stuðnings.

Ein leið fyrir nemanda til að átta sig á því hvort hann kunni efnið vel, er að loka stærðfræðibókinni, taka autt blað og skrifa eitt (erfitt) dæmi á blaðið. Síðan er gott ef hann getur talað upphátt meðan hann er að reikna sig í gegnum dæmið – eins og hann sé að kenna öðrum þetta efni. Þá nær hann að setja í orð, hugsa skýrar og nær dýpri skilningi á efninu. Þá kemur líka í ljós hvort að hann geti útskýrt efnið vel og reiknað sig í gegnum dæmið, án þess að horfa á sýnidæmi eða dæmið á undan.

Þrátt fyrir að þessi aðferð (autt blað) sé afskaplega einföld, þá reynir hún svakalega mikið á heilann og það er kannski þess vegna sem margir forðast hana og fara yfir í þægilegar aðferðir eins og að skoða næsta dæmi á undan eða herma eftir sýnidæmi, sem allt eru aðferðir sem eru samkvæmt rannsóknum óskilvirkar og tímafrekar.

Einhverjir foreldrar munu eflaust segja að þeir hafi nú aldrei “lokað bók og tekið autt blað” en samt gengið ágætlega í prófum. En það eru til aðferðir sem virka alveg, en þær taka langan tíma og eru ekki alveg eins skilvirkar. Ef þú vilt lesa nánar um þessa aðferð sem ég kalla autt blað, þá hef ég skrifað um hana r.


Posted

in

by

Tags: