Það er algengt að nemendum finnist efnið í stærðfræði vera ruglingslegt og flókið þegar kemur að prófi.

Þegar sú staða kemur upp, þá er mikilvægt að nemendur nái að setja í orð hvað það er sem þeim finnst ruglingslegt. Stærðfræði getur nefnilega verið mjög einföld, þegar nemendur ná að vinda ofan af ruglingnum og því mikilvægt að nemendur sætti sig ekki við ruglið og fái svör frá kennaranum sínum.
Annað sem er mikilvægt að gera, þegar unglingurinn þinn undirbýr sig fyrir próf, er að búa til svindlmiða. Það er nefnilega þannig að flestum finnst þeir þurfa að muna svo mikið af ólíkum aðferðum fyrir stærðfræðipróf, en staðreyndin er sú að yfirleitt er hægt að koma fyrir öllum atriðum „sem honum finnst hann þurfa að muna” á eitt blað! Það er hægt að kalla þetta blað svindlmiða eða glósublað og gott að hugsa um það sem blað sem unglingurinn ímyndar sér að hann megi mæta með í prófið.
En hvenær á unglingurinn þinn að byrja að skrifa á glósublaðið fyrir próf?
Svar: um leið og hann byrjar að undirbúa sig fyrir prófið. Það getur verið tveimur vikum fyrir próf, það getur líka verið kvöldið fyrir próf.
Hvernig á glósublaðið að líta út?
Svar: ekki skrifa orðrétt upp úr bókinni, það er best ef hann notar sitt orðalag og enginn annar þarf að skilja glósurnar!
Hvaða gagn er af þessu glósublaði ef hann má ekki taka það með í prófið?
Svar: ef hann er með öll atriði sem honum finnst hann þurfa að muna á einu blaði, þá verður öll upprifjun fyrir próf ekki eins yfirþyrmandi og yfirleitt muna nemendur líka mjög vel allt sem þeir skrifuðu á þetta blað.