Mér var boðið í veislu á fimmtudagskvöld og þar hitti ég fyrrum samstarfskonu mína sem spurði mig hvort ég væri með einhver stærðfræðinámskeið á netinu fyrir fullorðna.
Þegar hún var í framhaldsskóla þá frestaði hún öllum stærðfræðiáföngum og á endanum var hún komin með allt sem þurfti fyrir stúdentspróf – nema stærðfræðiáfangana. Hún endaði með því að klára þá með herkjum og fór síðan að læra sitt áhugasvið í háskólanum. En núna, mörgum árum seinna, hefur hún mikinn áhuga á að kafa dýpra í stærðfræðina.
Ég veit ekki hvort að þetta komi einhverjum á óvart, en ég fæ annað slagið tölvupóst frá einstaklingum sem langar að dusta rykið af stærðfræðinni og spyrja hvort ég sé með einhver stærðfræðinámskeið fyrir fullorðna.
Ég er ekki með nein námskeið fyrir fullorðna, en ég veit um mörg dæmi þar sem foreldrar hafi tekið námskeiðin mín með börnum sínum af því að þeir höfðu ekki haft áhuga á stærðfræði þegar þeir voru í skóla, en finnst það mjög spennandi núna.
Ef þú ert í svipaðri stöðu eða þekkir einhvern í þeirri stöðu, að hugsa „ég væri alveg til í að dusta rykið af stærðfræðinni“ þá eru margir möguleikar í boði, því það þarf ekki að sannfæra þig um að það sé skemmtilegt að takast á við krefjandi verkefni eða hvetja þig áfram daglega – eins og ég geri á mínum námskeiðum. Hérna eru helstu leiðirnar sem ég vil benda á:
Kaupa stærðfræðibók
Það er hægt að fara í A4 og kaupa notaðar stærðfræðibækur á góðu verði. Það er mikið úrval og sniðugt að fletta og skoða hvaða efni þú myndir vilja skoða betur. Hægt er að velja bækur til að rifja upp allt grunnskólaefnið (t.d. Stærðfræði 1) og síðan er líka mikið úrval af efni á framhaldsskólastigi. Ef þú vilt einhverja aðstoð við að velja bækur, þá er þér velkomið að vera í sambandi við mig. Þessi leið hentar sérstaklega vel þeim sem vilja rifja upp á sínum hraða og vilja geta valið efnið sem þeim langar að kafa dýpra í.
KhanAcademy vefurinn
Það er frábær vefur sem er ókeypis og heitir KhanAcademy. KhanAcademy var stofnað af Salman Khan sem byrjaði upphaflega að aðstoða frænku sína með stærðfræði í gengum netið, en í dag er þessi vefur notaður sem stuðningsefni í stærðfræði út um allan heim. Kennslumyndböndin á þessum vef eru frábær og dæmin líka, en helsti ókosturinn að mínu mati, er að það eru of fá dæmi til að geta þjálfað nýja færni. Annar ókostur er að vefurinn er á ensku og því getur verið ruglingslegt að átta sig á þýðingu hugtaka á íslensku. Þessi leið hentar sérstaklega vel þeim sem vilja rifja upp, en vilja ekki kaupa bækur, heldur láta vefinn finna út hvaða efni þeir ættu að æfa sig í.
Skrá sig í fjarnám
Þriðja leiðin sem ég ætla að nefna er að skrá sig í fjarnám í stærðfræði. Ég hef reynslu af fjarnámi hjá FÁ, Versló og FG í gegnum fjölskyldumeðlimi og hef haft sérstakan áhuga á því hvernig þeirri kennslu er miðlað og hvernig haldið er utan um nemendur. Ég mæli sérstaklega með fjarnámi hjá FÁ. Þeir hafa gríðarlega mikla reynslu þegar kemur að fjarnámi og þau stærðfræðinámskeið sem ég hef séð hafa verið til fyrirmyndar, með mikið af mjög góðum kennslumyndböndum og reglulegum æfingum. Þetta hentar þeim sem vilja hafa plan og smá aðhald að skila inn verkefnum og taka próf. FÁ er með nemendur á öllum aldri, en skv. vefnum þeirra er yngsti nemandinn sem þeir hafa haft 12 ára og sá elsti 79 ára.
Ef þú ert að hugsa um að dusta rykið af stærðfræði, þá máttu alveg láta mig vita, með því að svara þessum pósti.
Hvað heldur þú að unglingurinn þinn myndi segja ef þú færir út í búð að kaupa þér stærðfræðibók eða settist niður af miklum áhuga og eldmóð og færir að vinna á KhanAcademy?
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is