Enn og aftur er ég að rýna í niðurstöður PISA könnunarinnar og í dag ætla ég skoða hvernig nemendur upplifa áhuga og aðstoð frá stærðfræðikennaranum sínum.
Á mínum kennsluferli þá hef ég fengið til mín nemendur sem hafa verið með kennara sem sagði að þeir gætu aldrei lært stærðfræði, margir nemendur hafa sagt mér að þeir hafi ekki þorað að spyrja kennarann því þá varð hann pirraður og fleira. En sem betur fer er þetta undantekningin og skv. PISA könnuninni koma stærðfræðikennarar á Íslandi mjög vel út.
Í PISA könnuninni voru nemendur spurðir nokkurra spurninga varðandi upplifanir þeirra varðandi áhuga og aðstoð frá stærðfræðikennaranum og þeir nemendur (á Íslandi) sem svöruðu í flestum tímum eða öllum tímum, við neðangreindum spurningum, voru með eftirfarandi hlutfall:
Kennarinn sýnir áhuga á námi allra nemenda – 74%
Kennarinn veitir auka aðstoð þegar nemendur þurfa á því að halda – 75%
Kennarinn aðstoðar nemendur við námið – 83%
Kennarinn heldur áfram að útskýra þar til allir nemendur skilja – 75%
Þegar svör nemenda á Íslandi eru borin saman við svör nemenda í öðrum OECD ríkjum, þá er Ísland fyrir ofan meðaltal og hærri en Noregur, Finnland og Danmörk.
Ég er mjög ánægð með að það sé verið að spyrja út í upplifanir nemenda til stærðfræðikennarans og einnig að almennt séu nemendur á Íslandi að upplifa að stærðfræðikennarinn sýni þeim og öðrum nemendum áhuga og veiti þeim aðstoð.
Minn áhugi liggur þó sérstaklega í því hvernig aðstoð stærðfræðikennarar veita í tímum. T.d. ef nemandi á í vandræðum með ákveðið dæmi, þá finnst mér mikilvægt að kennarinn skoði hvað nemandinn sé búinn að gera og reyni að finna út hvað það er sem nemandinn skilur ekki – í stað þess að sýna bara hvernig á að reikna eða leysa verkefnið. Til að ná góðum tökum á stærðfræði þá er mikilvægt að nemendur tileinki sér rannsóknarhugarfar, en þá verða nemendur sem biðja um aðstoð í tímum að fá tækifæri á að segja hvað þeir eru búnir að reyna og rannsaka með kennaranum hvað það er sem þeir skilja ekki. Eitt gott ráð við því er að spyrja stærðfræðikennarann „getur þú séð hvað ég er að gera rangt?“ En hægt er að lesa meira um góðar stærðfræðispurningar með því að lesa grein sem ég skrifaði meðal annars um það.
Hvernig er staðan á þínum unglingi? Er hann að upplifa að fá aðstoð frá sínum stærðfræðikennara og er að nýta sér það? Það væri frábært að heyra frá þér, svo endilega smelltu á svara og láttu mig vita.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is