fbpx

Stærðfræði spjall

Í vikunni var ég að ganga með hundinn minn í hverfinu mínu, sem er nálægt grunnskóla, þegar tvær unglingsstúlkur löbbuðu fram hjá okkur. Það gladdi mig óendanlega mikið að þær voru að tala um stærðfræði! Önnur sagði “og þess vegna held ég að maður eigi að deila með 8” og hin svaraði “ha, af hverju?” og svo heyrði ég ekki mikið meir. En þær voru báðar svo áhugasamar og niðursokknar í þessa umræðu.

Það að geta talað upphátt um stærðfræði, skiptir miklu máli, því það er mjög erfitt að ná góðum tökum á stærðfræði ef maður getur ekki talað um hana. Það að læra stærðfræðihugtök og æfa sig í að tala upphátt og nota þessi hugtök er eitthvað sem þarf að gefa unglingum tækifæri á að æfa.

Þegar ég er að kenna stærðfræði í kennslustofu, þá reyni ég að kynna ýmis hugtök fyrir nemendum í lok tímans, þar sem ég geri smá leik úr því, en um leið læra (vonandi) flestir nemendur þessi hugtök. En það skiptir samt ekki síður máli að nemendur fái tækifæri á að tala upphátt þar sem þeir eru að nota þessi hugtök.

Ég nýti mér oft að velja nokkra nemendur til að vinna saman á töflu í stærðfræði tímum og þá finn ég að nemendum langar að geta notað stærðfræðihugtökin. T.d. ef ég kem og tala um ákveðið hugtak, þá heyri ég að eftir að ég er farin frá hópnum, þá eru nemendur að æfa sig að nota þessi hugtök upphátt.

Við sem foreldrar getum hjálpað unglingnum okkar að læra að tala meira um stærðfræði. Eitt er t.d. að minna unglinginn á að tala upphátt um stærðfræði þegar hann er að vinna í stærðfræði heima.

Við sem foreldrar getum líka hjálpað unglingnum okkar að auka orðaforðann í stærðfræði. Flestir grunnskólar eru að nota Skala bækurnar, en fremst í hverjum kafla í þeim bókum er listi yfir stærðfræðihugtök sem nemendur eiga að ná tökum á. Það er því frábært tækifæri fyrir foreldra að sjá hvaða hugtök unglingurinn er að læra. Það er hægt að skrifa þessi hugtök á blað og setja á ísskápinn og láta unglinginn setja sér markmið að þegar hann er búinn að fara yfir efni kaflans, þá þekki hann öll þessi hugtök og hefur æft sig að tala upphátt heima um stærðfræði með því að nota þessi hugtök.


Posted

in

by

Tags: