Ég fæ alltaf að heyra annað slagið frá nemendum „má ég reikna 10 dæmi og fara?”. Þetta eru oft nemendur sem þurfa að búa til pressu á sjálfan sig til að ná einbeitingu og finna fyrir innri hvatningu til að drífa dæmin af.

En því miður geri ég ekki svona samninga við nemendur, því stærðfræðinám snýst ekki um að drífa einhver dæmi af og fá rétt svör. Í svoleiðis vinnu felst lítil hugsun og enginn lærdómur.
Mér finnst stærðfræðinám vera líkara heimspekitíma. Nemendur eiga að rannsaka, mynda sér skoðun, efast og spyrja góðra spurninga. Það er ekki svarið sem skiptir öllu máli, heldur ferlið frá því að nemandinn sér dæmið og þangað til hann kemst að einhverri niðurstöðu. Ef hann fær síðan ekki sama svar og bókin, þá fara af stað áhugaverðar pælingar sem nemandinn lærir mest af.
Það er mitt persónulega mat að slæmt gengi í PISA könnunum megi rekja til þess að nemendur skilja efnið ekki nógu vel til að ná að yfirfæra þá þekkingu yfir á orðadæmin í þeim könnunum. Í flestum stærðfræðitímum, læra nemendur að reikna fullt af sambærilegum dæmum, en vita ekki alveg hvað þeir eru að gera eða hvernig þessi dæmi tengjast daglegu lífi.
Þegar nemendur eru í stærðfræðitíma hjá mér, þá bið ég nemendur að velja vel dæmin sem þeir ætla að vinna. Þeir eiga ekki bara að reikna næsta dæmi, heldur skoða næsta dæmi á gagnrýninn hátt og spyrja sig hvort að það dæmi sé eitthvað nýtt eða ólíkt dæminu sem þeir voru að leysa og spyrja sig hvort þeir þurfi að reikna þetta dæmi? Ef ekki, hvað er næsta dæmi sem þeir ætla að velja og hvað er öðruvísi við það dæmi?
Í tengslum við stærðfræði, þá erum við vön að hafa eitthvað mælanlegt og við erum vön því að allir eigi að reikna sömu dæmin og jafn mörg dæmi – en það er úrelt. Það sem skiptir mestu máli í stærðfræði er að nemendur læri að tileinka sér rannsóknar hugarfar og séu alltaf að leita að einhverju nýju til að læra. Það þýðir að „reikna 10 dæmi og fara” tekur mjög langan tíma ef þetta eru ekki 10 dæmi í röð, heldur 10 dæmi sem öll eru ólík og krefjast þess að nemandinn sé að læra eitthvað nýtt.
Á námskeiðunum hjá mér, þá vil ég að nemendur séu að taka frá 30-60 mínútur á dag (virka daga) til að vinna í námskeiðinu. Mér er alveg sama hvað þeir ná að fara yfir mikið efni á þeim tíma. Það sem skiptir mestu máli, er að nemendur séu að læra eitthvað nýtt og fara yfir efnið á hraða í samræmi við það. Þetta mínútu takmark, hefur reynst mörgum nemendum (og foreldrum) erfitt. Margir nemendur vilja ná að klára ákveðinn dag- eða vikuskammt, en eru ekki mikið að spá í hvort að skilningurinn sé nægjanlega djúpur á efninu. Það hjálpar þó til að nemendur þurfa að æfa sig á gagnvirkum æfingavef, því þá kemur í ljós hvort nemendur skilji efnið nægjanlega vel.