Það að reikna dæmi upp úr stærðfræðibók er aðeins einn pínulítill hluti af stærðfræði. En til þess að ná virkilega góðum tökum á stærðfræði er mikilvægt að kenna og fræða nemendur um margt annað sem kveikir áhuga þeirra á stærðfræði, breytir viðhorfi þeirra og fær þá til að trúa því að þeir geti orðið virkilega góðir í stærðfræði.
Eins og ég hef áður nefnt lít ég að mörgu leyti upp til Jo Boaler, sem er prófessor í stærðfræði við Stanford háskólann í Bandaríkjunum. Þar kennir hún einmitt einn áfanga þar sem áherslan er á að kenna og sýna hvað stærðfræði gengur virkilega út á. Eftir hverja önn fær hún alltaf þá endurgjöf að “nemendur vildu óska þess” að hafa fengið þessa kennslu fyrr, því þá hefðu þeir líklega valið að læra meira í stærðfræði eða öðrum tengdum fögum (svokölluðum STEM fögum).
Jo ákvað því, núna í upphafi þessa nýja árs, að skrifa opið bréf til allra nemenda sem gætu viljað læra og sérhæfa sig meira í stærðfræði (en hafa kannski ekki trú á því að þeir geti það).
Ég ákvað að þýða mjög lauslega skilaboðin hennar, þar sem þau taka saman það sem ég er búin að vera að tala um síðustu 11 ár og eru órjúfanlegur þáttur á námskeiðunum mínum.
Það er mikilvægt að ströggla í stærðfræði!
Þegar þú ert að lenda í erfiðleikum og þér finnst efnið sem þú ert að vinna mjög erfitt, þá er það einmitt mikilvægasti tíminn fyrir heilann. Heilinn er nefnilega eins og vöðvi, þegar þú reynir á hann þá er það eins og þú sért að æfa í ræktinni. Sumir halda að það sé veikleikamerki að ströggla í stærðfræði, en það er fjarri sannleikanum. Farsælasta fólkið í heiminum er það sem bregst jákvætt við og heldur áfram að reyna þegar það lendir í erfiðleikum.
-> Fagnaðu mistökunum og ekki gefast upp, því þá er heilinn þinn að stækka!
Það er ekkert til sem heitir stærðfræðiheili!
Það er ekkert til sem heitir „stærðfræðiheili“ og velgengni í stærðfræði hefur ekkert með meðfædda hæfileika að gera, heldur kemur með mikilli vinnu. Þegar við reiknum stærðfræðiverkefni þá erum við aðd styrkja ákveðnar tengingar í heilanum. Besta leiðin til að búa til og styrkja þessar tengingar, er að spyrja sig rannsóknarspurninga og vinna sig þannig í gegnum dæmin.
-> Ef þú átt í erfiðleikum með ákveðið efni, þá skaltu spyrja þig góðra spurninga og reikna, þannig styrkir þú tengingarnar í heilanum og verður betri.
Stærðfræði snýst ekki bara um reglur!
Stærðfræði er ekki, eins og margir halda, námsgrein sem samanstendur einungis af reglum og aðferðum. Stærðfræði er líka huglæg og má t.d. sjá stærðfræðimynstur allt í kringum okkur bæði í náttúrunni og byggingum.
-> Ef þú leggur áherslu á aðrar birtingar stærðfræði, þá verður þú betri stærðfræðingur.
Að nálgast stærðfræði á mismunandi vegu!
Við lærum stærðfræði þegar við sjáum fyrir okkur, teiknum, smíðum, skrifum, tölum um hugmyndir og hreyfum okkur, og svo líka þegar við reiknum. Sumar nálganir henta nemendum sérstaklega vel, en allir nemendur græða á því að nálgast efnið með ólíkum hætti þar sem það dýpkar skilning þeirra á efninu.
-> Ef þú vilt að heilinn þinn byggi upp mjög góðar tengingar, reyndu þá að nálgast hvert stærðfræðiverkefni á marga ólíka vegu.
Hægt er gott!
Góður árangur í stærðfræði tengist ekki því að vera fljótur að fatta, þar sem stærðfræði gengur ekki út á hraða. Stærðfræðingar eru oft mjög hægir að hugsa þar sem þeir vilja ná djúpum skilningi á efninu.
-> Ekki flýta þér í stærðfræði, því stærðfræði gengur ekki út á að vera fljótur að fatta. Þegar þú nærð djúpum skilningi á ákveðnu efni, þá áttar þú þig á hvað stærðfræði getur verið spennandi.
Talsmaður fyrir sjálfan þig!
Allir nemendur ættu að vera að vinna eins krefjandi verkefni og þeir hafa getu til. Ekki of erfitt og ekki of létt. Það skiptir því máli að þú getir staðið fyrir þínu og látið vita ef efnið sem þú ert með er ekki við hæfi.
-> Gerðu kröfu á þig og kennarann að þú sért að fá krefjandi verkefni við hæfi.
Ertu með einhverjar spurningar fyrir mig? Hvernig er staðan hjá þínum unglingi í upphafi þessa árs? Núna er tíminn til að gera ráðstafanir ef þörf er á miklum og góðum breytingum sem geta skilað sér í góðu gengi í vor. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þú hefur einhverjar spurningar.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is