fbpx

Símat í stærðfræði

Ég hef verið að kenna stærðfræði á framhaldsskólastigi í rúman áratug. Í þeirri kennslu hef ég meðal annars kennt nemendum sem ná ekki stærðfræði í grunnskóla. Í gamla kerfinu voru það nemendur sem náðu ekki 5 í einkunn og í bókstafakerfinu eru það nemendur sem ná ekki B í einkunn.

símat í stærðfræði

Það hefur margt breyst í grunnskólanum á þessum áratug, stærstu breytingarnar voru þegar einkunnir fóru úr tölum yfir í bókstafi og þegar framhaldsskólinn var styttur í 3 ár. Sú stytting hafði nefnilega þau áhrif að grunnskólinn átti að fara að sjá um að kenna áfanga (eins og t.d. Stærðfræði 103) sem áður voru kenndir á fyrsta ári í framhaldsskóla. Það sem er áhugavert við það, er að það varð aldrei nein breyting á kennslu í grunnskólum við styttingu framhaldsskólans. Það er enn verið að kenna sömu bækur og vinna með sama námsefni og var fyrir styttinguna.

En það er annað sem hefur breyst á þessum áratug í grunnskólanum. Flestir grunnskólar eru hættir með stór próf í lok annar og bjóða upp á símat, sem er meira í takti við aðalnámskrá grunnskólanna. Nemendur klára sem sagt ákveðið efni og þurfa síðan ekki að taka próf úr því efni aftur. Ef samræmdu prófin væru í gangi, þá væri það ekki vandamál, því þá gæfist nemendum tækifæri á að rifja upp það sem þeir hafa þegar lært og fá þá tækifæri á að festa það betur í minni. En þar sem samræmdu prófin eru ekki lengur í gangi, þá gefst nemendum ekki tækifæri á að rifja allt upp fyrri eitt stórt próf til að ná virkilega góðum tökum á stærðfræði.

Ég tel þetta vera helstu ástæðu þess að nemendur koma inn í framhaldsskólana með verri undirbúning. Það sem verra er, er að framhaldsskólarnir eru margir hverjir einnig farnir að færa sig yfir í símat. Það þýðir að nemendur fá ekki tækifæri á að rifja upp það sem þeir lærðu yfir önnina í stærðfræði sem skilar ekki eins góðum undirbúningi yfir í háskólana.

Það er miklu auðveldara fyrir alla nemendur að hafa símat, en því miður þá held ég að það sé á kostnað þess að fá tækifæri á að rifja upp og festa enn betur í minni það sem nemendur hafa lært. Þetta símat hefur áhrif stærðfræðikunnáttu nemenda og gæti verið hluti af skýringunni á því að kvartað sé yfir lélegum undirbúningi nemenda úr grunnskólum og úr framhaldsskólum – breyting sem átti sér stað um svipað leyti og stytting framhaldsskólanna.


Posted

in

by

Tags: