Í síðustu viku átti skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar fund með skólastjórum í Reykjavík þar sem meðal annars var rætt um símalausa skóla. Engin niðurstaða varð um það mál og því ljóst að í haust er það enn á valdi hvers skóla í Reykjavík að ákveða hvort símabann verði í skólum eða ekki.
Þegar þessi umræða um að banna síma í skólum kemur upp, þá eru margir sem halda að þeir sem séu á móti símum séu á móti tækni. En það er alls ekki þannig.
Ég er til dæmis fylgjandi því að snjallsímar séu bannaðir í grunnskólum. Ég er samt þeirrar skoðunar að við eigum að kenna nemendum að nýta tæknina við að afla sér upplýsinga og kenna nemendum að nýta sér gervigreindina, en hlífa nemendum frá áreiti samfélagsmiðla á skólatíma.
Færustu sérfræðingar heims hafa það að atvinnu að finna leiðir til að gera okkur háð smáforritunum á símanum og þeir hópar sem eru sérstaklega viðkvæmir og auðveldara að “plata” eru börn og unglingar.
Ég hef átt ungling sem var í skóla þar sem símar voru ekki bannaðir annars vegar og svo í skóla þar sem símar voru bannaðir. Ég tala því að reynslu sem foreldri þegar ég segi að það að banna síma hefur mjög marga jákvæða kosti.
Unglingar þurfa pásu frá samfélagsmiðlum
Í þeim skólum sem símar eru bannaðir, þá vita allir sem eru í samskiptum við unglinginn (vinir, kunningjar og foreldrar) að þeir munu ekki sjá og svara skilaboðum á skólatíma. Það er ákveðinn léttir fyrir unglinginn að vita af því og þurfa ekki að svara strax og fá smá pásu frá símanum.
Unglingar þurfa að þjálfa vinnusemi og þrautseigju
Það skiptir miklu máli að við þjálfum unglingana okkar að komast ekki alltaf í dópamín (vellíðunarhormónið) um leið og þeim leiðist. Ein leið til að þjálfa það er að hafa símann ekki sem valkost þegar þeim leiðist í tímum í skólanum. Hluti af því að þjálfa vinnusemi og þrautseigju er að gefast ekki upp og leita í eitthvað létt og skemmtilegt eins og símana þegar verið er að leysa krefjandi verkefni í skólanum.
Unglingar þurfa að láta sér leiðast í pásum
Ef þú myndir heimsækja skóla í frímínútum sem væri með símabann og fara svo í annan skóla þar sem er ekki símabann, þá myndir þú sjá mikinn mun. Í skólum sem leyfa síma á unglingastigi, þá er alveg hljóð, allir nemendur eru með hausinn ofan í símanum sínum og samskipti milli nemenda mjög lítil. En í skóla þar sem símar eru bannaðir eru aðeins meiri læti enda unglingar í eðlilegum samskiptum við hvort annað. Sumir þessara skóla bjóða upp á skemmtilega afþreyingu eins og skák, borðtennis og borðspil. Það er líka allt í lagi að leyfa unglingum að æfa sig í að spjalla saman og tjá sig augliti til auglitis. Það er ekki sama æfing sem fæst með því að senda skilaboð á milli eins og þegar unglingar tala saman.
–
Það sem er áhugavert við samfélagsmiðla er að unglingar, sérstaklega unglingsstúlkur, sem nota samfélagsmiðla nokkra klukkutíma á dag viðurkenna að þeim líður illa og að samfélagsmiðlar séu að valda þessari vanlíðan. En vandamálið er að unglingar eru háðir samfélagsmiðlum og eru hræddir um að missa mikið ef þeir minnka notkunina eða jafnvel hætta alveg að nota samfélagsmiðla.
Þegar ég var að skrifa þetta rakst ég á nýjan pistil frá sérfræðingum í miðlanotkun hjá SAFT, en þeir eru á móti algjöru símabanni í skólum. Ég er ósammála og það er allt í lagi – og þú mátt líka vera ósammála mér.
Hvernig er þessu háttað í skólanum hjá þínum unglingi? Eru símar leyfilegir í skólanum? Mega nemendur nota símann í kennslustund? Hver er þín skoðun á þessu símamáli?
Það væri frábært að heyra frá þér svo ef þú hefur tíma og tök þá máttu endilega senda mér tölvupóst eða Facebook skilaboð.