fbpx

Símabann í skólum

Ég verð að deila með ykkur reynslu sem hefur gjörbreytt kennslunni minni.

Símanotkun í skólum er mikið hitamál og ég var í smá pælingum hvort ég ætti að skrifa um þetta. En eftir að hafa kennt unglingum á framhaldsskólastigi síðan 2013, þá finnst mér orðið óhjákvæmilegt að segja mína skoðun.

símabann

Hvenær fóru símar að trufla?
Fyrstu árin fann ég ekkert mikið fyrir því að símar væru vandamál. Nemendur voru með síma, en notuðu þá lítið í tímum. En eftir 2020 breyttist eitthvað. Síminn fór að taka ótrúlega mikið pláss – bæði bókstaflega og andlega.

Ég reyndi ýmislegt:
– bað nemendur vinsamlegast um að vera ekki í símanum
– setti upp símaborð í kennslustofunni sem þeir máttu fara á, ef þeir „urðu“ að nota símann

En ekkert virkaði. Síminn truflaði nemendur sjálfa, truflaði samnemendur – og svo sat ég sjálf eftir og var orðin hálfgerð símalögga. Ekki það sem mig langaði að vera í kennslu.

Símalaus stærðfræði – breytingin
Fyrir nokkrum önnum síðan ákvað ég að prófa símalausa kennslu í stærðfræði. Ekki algjört bann – en skýr regla: síminn fer í boxið við upphaf tímans, nema sérstakar ástæður liggi fyrir.

Fyrstu viðbrögðin voru… já, áhugaverð. Nemendur sem höfðu verið hjá mér áður mótmæltu og sumir sögðust ætla að hætta í stærðfræði. En ég gaf mig ekki. Og eftir tvær til þrjár vikur – var þetta bara venja en ekki vandamál.

Núna er ég að kenna þriðju önnina með símalausa stærðfræðitíma. Nemendur spyrja ekkert – þetta er bara staðan. Líklega af því að margir grunnskólar eru líka farnir að setja reglur um símanotkun.

Hvað breyttist?
Ég trúi því varla sjálf hvað þessi breyting hefur haft mikil áhrif – og þau eru öll jákvæð:

– Vinnufriður í stofunni
– Nemendur reyna lengur við verkefnin áður en þeir gefast upp
-Þrautseigja og einbeiting er meiri
-Og – kannski skemmtilegast af öllu – sumir nemendur gleyma að sækja símann sinn í boxið eftir tímann

Ég tek alltaf tillit til sérstakra þarfa. Nemendur með veikindi eða á rófi fá að hafa símann hjá sér. Og ef einhver á von á mikilvægu símtali fær hann að hafa símann hjá sér. Sveigjanleiki og virðing eru grunnreglur. En almenna reglan stendur: stærðfræðitímar = símalausir tímar.

Háskólanámið mitt og ný skýrsla
Síðasta þriðjudag kom upp umræða í náminu mínu í Háskóla Íslands um símabönn í skólum. Kennarinn minn benti mér þá á nýlega skýrslu sem fór ítarlega í þetta efni. Hún heitir “Smartphone policies in schools: What does the evidence say?” eftir Rahali o.fl. (2024).

Þetta er 50 blaðsíðna skýrsla sem byggir á samantekt fjölmargra rannsókna, auk tilviksrannsókna frá ólíkum löndum. Aðalatriðin voru þessi:

– Skýr og ströng takmörkun á símanotkun getur aukið einbeitingu og bætt námsárangur – sérstaklega hjá nemendum sem eiga erfitt með fókus
– Í stað þess að tala um „bann“ ættum við að tala um skynsamar takmarkanir:
– Skýr stefna sem allir skilja
– Sveigjanleiki fyrir sérstakar þarfir
– Samráð við nemendur, kennara og foreldra
– Áhersla á lærdómsumhverfi og vellíðan
Markmiðið er ekki refsing – heldur ró, einbeiting og virk þátttaka í námi.

„Við eigum bara að kenna þeim að umgangast símana“?
Ég verð að viðurkenna að það fer aðeins í taugarnar á mér þegar fólk segir: „Við eigum bara að kenna nemendum að umgangast símana.“ Ég skil hvað fólk á við – en þetta er oft sagt eins og lausnin sé svo einföld.

Reynslan mín og þessi skýrsla segja annað: Við erum að kenna þeim að umgangast símana – með því að sýna að þeir eiga ekki heima í kennslustund. Þegar ég er að læra, þá er síminn ekki með. Punktur.

Ég er ekki á móti tækni
Langt í frá. Ég vil að allir nemendur hafi aðgang að Chromebook-tölvum og öðrum tækjum frá skólanum sem nýtast í námi. En persónulegir símar eru ekki þar undir.

Þegar nemandi notar sinn eigin síma sem „lærdómstæki“, þá skapast ójöfnuður – því ekki allir eiga síma og vissulega ekki allir nýjustu og bestu símana. Þetta er líka jafnréttismál.

Foreldrahliðin
Ég er líka foreldri. Og ég hef séð muninn á eigin barni – í skóla þar sem engar reglur voru um síma og síðan í skóla þar sem símar voru ekki leyfðir nema vegna sérstakra aðstæðna. Það var þvílíkur léttir þegar við færðum okkur í símalausan skóla.

Þar voru spil, taflborð, borðtennis og alls konar annað í boði í frímínútum – og andrúmsloftið var gjörólíkt.

Niðurstaðan
Ég er þreytt á símaumræðunni. En í mínu litla horni ætla ég að halda áfram að kenna stærðfræði í ró og næði, þar sem nemendur mínir eru áhugasamir og virkir.

Ég ætla ekki að breyta heiminum – en ég nýt þess í botn að vera kennari í símalausum stærðfræðitímum.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
Hjá stærðfræði.is​

​Heimild​
Rahali, M., Kidron, B., & Livingstone, S. (2024). Smartphone policies in schools: What does the
evidence say? 5Rights Foundation & Digital Futures for Children.
https://eprints.lse.ac.uk/125554/1/Smartphone_policies_in_schools_Rahali_et_al_2024_002_.pdf


Posted

in

by

Tags: