Síðasta föstudag, var starfsþróunardagur í framhaldsskólum landsins. Stærðfræðikennararnir hittust í gamla skólanum mínum, Menntaskólanum í Reykjavík, þar sem við bárum saman bækur, hlustuðum á áhugaverða fyrirlestra og ræddum um allt sem tengist stærðfræði og stærðfræðinámi.
Ein af fyrirlesurum á þessum degi var Bjarnheiður Kristinsdóttir, lektor við Háskóla Íslands. Hún kynnti SamSTEM verkefnið, sem er samstarfsverkefni HÍ, HR og HA. Markmið verkefnisins er að fjölga brautskráðum nemendum í raunvísindum, tæknigreinum, verkfræði og stærðfræði.
Fulltrúar SamSTEM verkefninsins heimsóttu 24 framhaldsskóla og ræddu við kennara í þessum greinum. Niðurstaða þessara heimsókna voru 12 atriði, sem mér skilst að hópurinn muni leggja fyrir ráðherra á næstu dögum.
Þrátt fyrir að þetta verkefni sé fyrst og fremst að skoða þessar fyrrnefndu námsgreinar, þá voru niðurstöðurnar sem snúa að grunnskólanum mjög almennar og eiga við alla grunnskólanemendur óháð því hvaða námsbraut þeir velja í framhaldsskóla.
Það er einkum tvennt sem snýr beint að grunnskólanum, sem framhaldsskólakennarar höfðu miklar áhyggjur af og ég vil nefna hér.
1. Mikill munur er á undirbúningi nemenda við upphaf náms í framhaldsskóla.
Þegar framhaldsskólinn var styttur úr fjórum árum í þrjú ár, þá átti grunnskólinn að taka að sér að kenna efni sem áður var kennt í framhaldsskólum. Það var ekki gert, enda er enn verið að kenna sömu bækur og áherslur hafa almennt ekkert breyst í grunnskólum eftir styttingu framhaldsskólans. Einnig er það almenn skoðun framhaldsskólakennara (í þessum tilteknu námsgreinum) að mikið misræmi sé í einkunnagjöf milli grunnskóla.
Tillaga að úrlausn:
Tillaga SamSTEM hópsins miðast við að tryggja þurfi öllum nemendum í grunnskóla góðan undirbúning fyrir nám í framhaldsskóla. Það er hægt að gera með ytra mati (eins og samræmdu prófin voru) sem myndi þá einnig koma í veg fyrir mikinn þrýsting frá foreldrum og nemendum varðandi einkunnagjöf í 10. bekk.
2. Tölvufærni nemenda sem hefja nám í framhaldsskólum hefur farið aftur undanfarin ár.
Nemendur í grunnskóla nota margir hverjir eingöngu spjaldtölvur og síma. Þeir hafa því ekki reynslu og þjálfun í fingrasetningu eða þekkingu á skipulagningu í ritvinnslu.
Tillaga að úrlausn:
Tillaga hópsins er að endurvekja þrufi nám í tölvufærni í grunnskólum. Nemendur þurfa að fá tækifæri til að læra og æfa fingrasetningu, læra að nota ritvinnsluforrit og læra að búa til möppur og skipuleggja gögnin sín í tölvum.
Ég hef áður skrifað um mikilvægi þess að nemendur læri að ná góðum tökum á fingrasetningu. Sú færni er í aðalnámskrá grunnskólanna, en þrátt fyrir það eru fáir skólar sem leggja áherslu á að ná virkilega góðum tökum og hraða í fingrasetningu á lyklaborði við lok 10. bekkjar. Þetta er eitthvað sem foreldrar geta látið unglingana sína læra heima. Nánari upplýsingar um æfingar og útfærslu sem þú sem foreldri getur vonandi nýtt þér er hér.
Ertu með einhverjar spurningar?
Ef svo er, hikaðu ekki við að hafa samband.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is