Þessa dagana er ég að lesa bækur og rannsóknir sem snúa að því hvernig sé best að kenna nemendum ákveðið efni. Þær rannsóknir sem ég hef verið að skoða síðustu daga snúa að því að kanna hvort að það sé betra að láta nemendur reyna fyrst við dæmi og fá síðan að sjá hvernig dæmið er leyst – eða sýna þeim fyrst hvernig dæmið er almennt leyst og láta þá reyna svo við dæmið.
Niðurstöðurnar úr nokkrum ólíkum rannsóknum eru þær að það skiptir mestu máli að nemendur fái: sýnidæmi, æfingadæmi og endurgjöf – en í hvaða röð það er gert skiptir ekki öllu máli. Sem sagt, það skiptir ekki máli hvort nemendur reyni fyrst eða fái sýnidæmi fyrst.
Ég hef þó í minni kennslu gert mikinn greinarmun þarna á milli. Þegar nemendur eru að æfa sig í að ná tökum á ákveðinni aðferð, t.d. leysa brotajöfnur – þá finnst mér mikilvægt að kenna nemendum ákveðna aðferð til að leysa slíka jöfnu. Nemendur geta svo í framhaldinu valið að nota sínar eigin aðferðir við að leysa brotajöfnurnar, en þeir hafa ákveðinn grunn til að byggja á.
Aftur á móti þegar ég var að undirbúa nemendur fyrir samræmt próf í stærðfræði, þar sem stærsti hluti prófsins voru orðadæmi, þá fannst mér mikilvægt og ég lagði mikla áherslu á að nemendur reyndu sjálfir við dæmin fyrst. Ástæðan fyrir því er sú að þegar við erum að vinna með orðadæmi, þá er hægt að fara svo margar ólíkar leiðir að því að leysa dæmið. Það skiptir mestu máli að nemendur skilji hvað verið sé að spyrja um, en finni síðan sínar eigin leiðir til að leysa dæmið. Ef nemendur ná ekki að leysa dæmið, en hafa varið dágóðum tíma í að reyna við dæmið, þá eiga þeir mun auðveldara með að skilja og tengja við svarið þegar ég sýni þeim eina tillögu að lausn.
Það sem var líka svo skemmtilegt við þessi orðadæmi var, að nemendur voru svo hissa að þeir gætu leyst dæmin með allt annari aðferð en ég. Þá var stærðfræðin allt í einu ekki farin að snúast um að læra einhverjar aðferðir utan að, heldur nota ímyndunaraflið, teikna myndir, punkta hjá sér upplýsingar og á endanum komast að stærðfræðilega réttri niðurstöðu.