Nemendur sem standa höllum fæti í stærðfræði upplifa oft að sumar reglur virki bara stundum í stærðfræði.

Þegar þessi staða kemur upp, þá er mjög mikilvægt að finna sannanir og rannsaka hvers vegna nemendum finnst þetta. Það er nefnilega alltaf um misskilning að ræða sem getur, eftir að misskilningurinn hefur verið leiðréttur, haft jákvæð áhrif á viðhorf nemenda til stærðfræði.
Tökum dæmi. Nemendur kunna flestir að segja „mínus og mínus verður plús”, en það er ekki rétt. Mínus tala margfölduð við aðra mínus tölu verður plús tala, en ef ég legg saman tvær mínus tölur þá fæ ég stærri mínus tölu. Til dæmis:
-3 x -5 = 15 en
-3 – 5 = -8
Það er því mikilvægt að nemendur læri ekki bara að segja einhverja „frasa” án þess að hugsa. Sem sagt, ekki læra bara utan að „mínus og mínus verður plús” heldur t.d. að „mínus tala margfölduð við aðra mínus tölu verður plús” og læra líka „en ef ég legg saman tvær mínus tölur, þá fæ ég stærri mínus tölu”. Síðan er mikilvægt að nemendur skilji hvers vegna og átti sig á því að þessi dæmi eru mjög ólík, til að minnka líkurnar á því að rugla þessu saman.
Ég lendi stundum í því að nemendur segja við mig „afhverju mátti ég þetta áðan, en ekki núna?” – í þeim tilfellum bið ég nemendur að finna dæmið sem „þetta mátti í” til að ég geti útskýrt fyrir þeim hver munurinn er. Þegar nemandinn og ég erum búin að fara yfir muninn á þessum tveimur tilvikum, þá kemur oft ákveðinn léttir yfir nemendur. Líklega af því að þá þurfa þeir ekki lengur að vera pirraðir yfir að einhverjar reglur virki bara stundum í stærðfræði.
Ef þú heyrir unglinginn þinn einhvern tíma segja, að eitthvað virkar ekki lengur, virkar bara stundum eða að stærðfræðin sé eitthvað órökrétt, þá er nauðsynlegt að finna sannanir. Ef við látum hann ekki finna sannanir, þá getur viðhorf hans til stærðfræði orðið mjög neikvætt. Láttu unglinginn þinn finna annað dæmi þar sem eitthvað „mátti” og svo hitt dæmið sem það allt í einu má ekki lengur. Síðan er mikilvægt að spyrja kennarann í næsta stærðfræðitíma (eða senda mér bara tölvupóst og spyrja!). Yfirleitt eru þetta bestu spurningarnar og að fá svör við þeim dýpkar skilning og hefur jákvæð áhrif á viðhorf nemenda til stærðfræði.