Vissir þú að stærðfræði snýst oft um væntingastjórnun. Þó svo ég noti ekki hugtakið væntingastjórnun á námskeiðunum hjá mér, þá er ég að kenna nemendum að nálgast verkefnin með ákveðið viðhorf.
Stærðfræðiverkefni eru stundum eins og bíómyndir. Ef einhver ný mynd kemur út og þú heyrir að myndin sé ÆÐI, þá ferðu að hafa háar væntingar til myndarinnar. Það verður því stundum til þess að þú verður fyrir vonbrigðum.
Sem sagt, hvað aðrir segja hefur mikil áhrif á það hvernig þú horfir á myndina.
Það er alveg eins með verkefni í stærðfræði. Unglingurinn þinn heyrir einhverja segja að efnið sé annað hvort létt eða ógeðslega erfitt – og það hefur áhrif á það hvernig unglingurinn þinn nálgast verkefnið.
Mörgum finnst stærðfræði leiðinleg, eingöngu af því að þeir hafa heyrt suma segja að eitthvað sé mjög létt, en svo þegar unglingurinn þinn fór í það efni, þá skildi hann ekki neitt!
En hvað er hægt að gera til að breyta þessu?
Fyrst er að átta sig á því að stærðfræði snýst ekki um að meta hvort eitthvað sé erfitt eða létt, enda alveg út í hött þar sem allir læra á mismunandi hátt.
En það sem er hægt að kenna nemendum, er að nálgast allt efni í stærðfræði með rannsóknarviðhorfi. Þegar þú ert að rannsaka eitthvað, þá áttu ekki að vera fljótur að fatta og það skiptir engu máli hvort einhver segir að verkefnið sé ógeðslega erfitt – rannsóknarvinna er alltaf rannsóknarvinna.
Verkefni sem er með þau fyrirmæli að rannsaka, gengur út á að njóta sín að leysa krefjandi verkefni. Ef það kemur í ljós að unglingurinn er fljótur með verkefnið, þá er bara að fara í næsta rannsóknarverkefni og sjá hvort hann fái tækifæri á að læra eitthvað nýtt í því verkefni.
Það hefur ekki mikil áhrif á unglinginn þinn að heyra einu sinni að “stærðfræði sé rannsóknarvinna”. Viðhorf til stærðfræði breytist ekki á einni nóttu og það þarf stöðugt að minna nemendur á að stærðfræði er rannsóknarvinna, en ekki bara eitthvað verkefni sem er annað hvort létt eða erfitt.
Á námskeiðunum hjá mér, þá hef ég tækifæri á að vinna með viðhorf nemenda í 4 vikur. En hvað getur þú sem foreldri gert strax í dag til að breyta viðhorfi þíns unglings í stærðfræði og fá hann til að líta á stærðfræðiverkefni sem rannsóknarvinnu?
Það sem þú getur gert, er að taka gulan Post-it miða og skrifa á hann Stærðfræði er rannsóknarvinna og setja miðann á ísskápinn. Ekki segja neitt en sjáðu hvað unglingurinn þinn segir þegar hann sér þennan miða.
Síðan þegar hann tekur eftir miðanum, þá getið þið átt heimspekilegar umræður, t.d. um það hvernig maður nálgist verkefni sem eru rannsóknarvinna. Hverju myndi það breyta ef unglingurinn þinn nálgaðist hvert dæmi í stærðfræði sem rannsóknarvinnu þar sem markmiðið væri að læra eitthvað nýtt?
Ef þú prófar þetta, láttu mig þá endilega vita hvernig fer.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is