fbpx

Pygmalion áhrifin

Þú hefur eflaust heyrt tilvitnunina:

Ef þú trúir því að þú getir eitthvað, þá getur þú það

og einnig

Ef þú trúir því að þú getir ekki eitthvað, þá getur þú það ekki

En í dag ætla ég að tala um trú annarra á okkur! Það er til hugtak í sálfræðinni sem kallast Pygmalion effect.

Skilgreining á Pygmalion áhrifunum eru á lauslegu mannamáli: mínar væntingar til þín, hafa áhrif á þína hegðun.

Ef við færum þetta yfir í kennslustofuna, þá hafa væntingar kennara til nemenda áhrif á hvernig nemendum muni ganga í námi (og þessi tiltekni þáttur, inni í kennslustofu, hefur einmitt verið rannsakaður mikið).

Það þýðir að ef unglingurinn þinn er með kennara sem trúir því innst inni að unglingurinn þinn geti ekki lært stærðfræði, þá mun hann ekki geta lært stærðfræði.

Og öfugt, ef unglingurinn þinn er með kennara sem trúir því að hann geti lært og náð mjög góðum tökum á stærðfræði, þá mun hann geta það (svo lengi sem nemandinn sýnir einhvern áhuga og kennarinn veiti honum stuðning).

pygmalion áhrifin
Það skiptir miklu máli að kennarar trúi því innst inni að nemendur geti náð árangri og segi þeim það

Það er ekki hægt að þykjast trúa á nemendur. Ef kennarinn trúir því ekki innst inni, þá mun það skila sér í slæmu gengi nemandans. Jafnvel þótt kennarinn segi við hann “ég trúi á þig”, “þú getur þetta” – þá virkar ekki að segja þetta.

En þá spyrja sig kannski margir, hvað á maður að gera með ungling sem hefur gengið mjög illa í stærðfræði? Ef þú sem foreldri eða kennari finnst þú ekki geta horft í augun á honum og sagt með mikilli sannfæringu og trú “ég trúi á þig, þú getur þetta!” – þá er til lausn á því, þökk sé Carol Dweck.

Ég hef áður minnst á Carol Dweck, en hún skrifaði bókina Mindset, eða Hugarfar. Carol Dweck er (líklega enn) sálfræðingur í Stanford og rannsakaði mikið hugarfar og skilgreindi tvær tegundir þess: hamlandi hugarfar og vaxandi hugarfar.

Staðreyndin er nefnilega sú að ef þú sem foreldri eða kennari trúir því innst inni að allir geti bætt sig og orðið betri (þ.e.a.s. ert með vaxandi hugarfar), þá getur þú án þess að plata þig eða unglinn þinn, horft í augun á honum og sagt “ég trúi á þig, þú getur þetta!”.

Sem sagt, ef þú trúir því að allir geti bætt sig, en fæðist ekki í einhverju óbreytanlegu boxi – þá veistu innst inni að unglingurinn þinn getur lært og hann getur bætt sig.

En þetta dugar auðvitað ekki eitt og sér, unglingurinn þarf í kjölfarið að leggja eitthvað á sig og vilja ná árangri í því sem hann er að takast á við.

Svo ég flæki þetta aðeins meir, þá geta nemendur sem hafa engan í kringum sig sem trúir á þá, samt sem áður náð miklum árangri! En eins og ég kenni á námskeiðunum hjá mér, þá geta nemendur lært að tileinka sér sjálfir vaxandi hugarfar! Ef þeir trúa því sjálfir, innst inni, að þeir geti bætt sig og ef þeir eru tilbúnir að leggja eitthvað á sig, þá munu þeir svo sannarlega geta það, jafnvel þótt að kennarinn trúi ekki á þá.

Niðurstaðan á þessum skrifum er: ekki horfa á unglinginn og hugsa bara um hvernig hann sé núna, hugsaðu hvernig hann getur bætt sig og leyfðu honum að finna það að þú trúir því að hann geti bætt sig!

Ef þú, sem foreldri, átt erfitt með að trúa á unglinginn þinn (sem ég efast reyndar um, fyrst þú ert á póstlistanum mínum), þá mæli ég með bókinni Mindset eftir Carol Dweck. Þessi bók nýtist reyndar öllum, því auðvitað er mikilvægt fyrir okkur að umgangast aðra með þetta hugarfar, hvort sem það er heima fyrir eða í vinnunni. Væntingar okkar til annarra hafa áhrif, það er ekki hægt að “feika” það og það njóta allir góðs af því ef við tileinkum okkur vaxandi hugarfar.


Posted

in

by

Tags: