Algeng spurning sem kennarar fá frá nemendum er „kemur þetta á prófi?“. Ef kennarinn svarar já, þá sperra nemendur eyrun og hlusta.
Er það gott eða slæmt?
Það er hvorki gott né slæmt, en þetta er bara eins og heilinn okkar virkar! Ef nemendur vita að þeir eiga eftir að þurfa að læra efnið fyrir próf, þá nær heilinn betri einbeitingu (e. attention).
Rannsóknir hafa sýnt að til þess að hafa einbeitingu til að læra nýtt efni, þá þurfa nemendur reglulega endurgjöf. Endurgjöfin getur verið bein frá kennara, en í ljósi bekkjarstærðar og raunsæis er besta endurgjöfin próf.
Ef nemendur læra efni og hafa tækifæri á að taka próf með reglulegu millibili þá halda þeir betur einbeitingu við efnið sem þeir eru að læra og ná að skilja það betur.
Ef nemendur fá ekki þessa endurgjöf, t.d. í formi prófa, þá læra nemendur ekki efnið eins vel því heilinn þeirra beinir ekki athyglinni nægjanlega vel að efninu.
En hvers vegna leyfum við þá nemendum ekki að taka reglulega próf?
Mín skoðun er sú að það eru miklir fordómar gagnvart prófum í grunnskólum. En besta leiðin til að styðja við nemendur, að mínu mati, er að vera með samræmdar mælingar og próf. Ef það er ekki til staðar, þá erum við bara að giska eitthvað út í loftið og náum ekki að grípa þá nemendur sem þurfa aðstoð og eru ekki að ná tökum á efninu.
Almennt eru tvær ástæður fyrir því að fólk eru á móti samræmdum mælingum og prófum: „próf eru slæm, þau valda svo miklum kvíða“ og „þegar það eru próf, þá snýst kennslan um að undirbúa nemendur fyrir prófin“. Skoðum þessar ástæður aðeins betur.
Próf eru slæm, þau valda svo miklum kvíða
Próf þurfa ekki að vera einhver stimpill eða ein einkunn. Niðurstaða úr prófum til nemenda getur verið skrifleg, t.d. hvað nemandinn gerði vel og hvar hann þarf að bæta sig. Endurgjöfin sem próf veita eiga að segja nemandanum hvað gekk vel og hvað hann getur gert til að bæta sig. Kennarar geta síðan notað mælingarnar til að styðja nemandann og fylgja honum enn betur eftir í því sem hann þarf stuðning með.
Þegar það eru próf, þá snýst kennslan um að undirbúa nemendur fyrir prófin
Þetta hafa verið helstu rök þeirra mörgu kennara sem voru á móti samræmdu prófunum. Ég stend enn við þá skoðun mína að samræmdu prófin voru frábært tæki fyrir foreldra og nemendur til að sjá hvar þeir standa námslega í stærðfræði og íslensku. Samræmdu prófin voru ekki alveg í takt við það sem kom fram í Aðalnámskrá grunnskólanna, en það á alveg að vera hægt að semja matskerfi til að meta þá þætti sem koma fram. Ég er ekki að segja að það sé auðvelt, en það er ekki hægt að setja eitthvað fram í námskrána sem er ekki hægt að meta eins milli allra skóla.
Uppsprettan af þessum hugleiðingum um próf fékk ég á ráðstefnu sem haldin var 3. mars síðastliðinn. Ráðstefnan var á vegum Rannsóknaseturs um menntun og hugarfar og bar heitið Heili, nám og færni. Þar voru vísindamenn frá Frakklandi að ræða hvernig þeir nýta rannsóknir í heila- og taugavísindum til að bæta nám og kennslu þar í landi. Einn af mörgum punktum sem ég tók frá þessari ráðstefnu var:
Ef þú tekur burt endurgjöf eins og próf
þá tekur þú í burt athygli nemandans
- þannig virkar heilinn!
Svo er náttúrulega frábær bónus að nemandi, foreldrar og kennarar vita hvar nemandinn stendur svo hægt sé að styðja rétt við hann!
Ertu með einhverjar spurningar? Hikaðu ekki við að hafa samband með því að svara þessum pósti.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is