PISA prófin eru mikið búin að vera í umræðunni síðustu daga, enda kom í ljós, það sem allt of margir vissu að í stefndi, að íslenskum nemendum hefur hrakað svakalega mikið frá síðasta PISA prófi.
Eftir að hafa hlustað á helstu fræðimenn ræða niðurstöður þessara prófa, þá eru flestir sammála um að það þarf:
– að endurskoða aðalnámskránna (sem er reyndar í vinnslu)
– að búa til betra námsefni sem styður við námskránna og ólíkar þarfir nemenda
– meiri og betri starfsþróun kennara og
– innleiða samræmt námsmat
Ég hef aldrei verið feimin við að viðurkenna að ég var mjög hlynnt samræmdu prófunum, þar sem ég vissi að það væri tækifæri fyrir nemendur að taka sig á, gott fyrir nemendur og foreldra til að átta sig á hvar þeirra barn stóð námslega séð og einnig aðhald fyrir skólana til að tryggja allir nemendur væru að fá góða kennslu.
Samræmdu prófin voru ekki fullkomin, þau studdu ekki alveg nógu vel við aðalnámskrá grunnskólana, en það var það besta sem við höfðum og það var betra en ekkert samræmt námsmat.
Því miður voru samræmdu prófin aldrei notuð í skólunum til að styðja við nemendur (já ég ætla að leyfa mér að alhæfa hérna, en kannski voru einhverjar undantekningar). Almennt var litið á samræmdu prófin sem eitthvað mælitæki sem skipti engu máli. Í stað þess að nota þau til að sjá hvar nemendur standa höllum fæti og styðja við nemendur, eins og yfirlýst markmið prófanna var.
Það er svo sem ekki hægt að sakast við skóla og kennara að hafa ekki nýtt samræmdu prófin, þar sem bekkjarstærðir eru allt of stórar og það eru ekki til námsgögn til þess að styðjast við ólíkar þarfir nemenda.
Í staðin fyrir samræmdu prófin stendur til að innleiða eitthvað sem kallað er Matsferill. En það eru minni verkefni sem kennarar geta lagt fyrir nemendur þegar hentar best og eiga síður að raska skólastarfi.
Síðastliðinn þriðjudag fór ég kynningarfund hjá Menntavísindasviði Háskóla Íslands varðandi PISA prófin. Samkvæmt fræðimanni hjá Menntavísindasviði, sem talaði á PISA ráðstefnunni, þá mun þessi Matsferill ekki leysa vandamálið. Það þarf að koma til samræmds námsmats.
Ég hef ekki mikla trúað staða íslenskra nemenda breytist og líklega mun hún halda áfram að fara niður á við. Það tekur langan tíma að skrifa nýja aðalnámskrá, búa til nýtt námsefni sem styður við aðalnámskránna og innleiða samræmt námsmat sem styður við aðalnámskránna.
Fyrir mér er svo augljóst að til þess að nemandi nái árangri (hvar sem hann er staddur), þá þarf að meta stöðuna, gefa honum verkefni við hæfi ásamt endurgjöf og hvatningu og meta svo aftur stöðuna eftir ákveðinn tíma. Við getum ekki látið nemendur fljóta í gegnum allt skólakerfið án þess að meta stöðuna og bregðast við. Það gengur heldur ekki að hver skóli sé að túlka aðalnámskránna með sínum hætti og búa til námsefni eftir því hvernig hver kennari túlkar þessa huglægu námskrá okkar.
En niðurstöður Pisa eru ekki einungis á ábyrgð ráðherra og skólayfirvalda. Við sem foreldrar þurfum líka að taka ábyrgð og sjá hvað við getum gert. Það sem mér finnst vanta helst hjá unglingum í dag, er æfing í að takast á við krefjandi verkefni í langan tíma og átta sig á hvaða gögn og upplýsingar eru áreiðanlegar.
Til að æfa sig í að takast á við krefjandi verkefni, þá geta unglingar t.d. lesið bækur án þess að vera með síma sem truflar nálægt. Einnig finnst mér hættulegt hvað margir unglingar trúa því sem þeir sjá á netinu, við þurfum að kenna þeim að leita að áreiðanlegum heimildum frá aðilum og stofnunum sem hafa sérfræðiþekkingu.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is