“Allir geta lært stærðfræði og allir geta orðið mjög góðir í stærðfræði, en nemendum þarf að langa til þess og þeir þurfa að vera tilbúnir að leggja mikið á sig. Mig langar t.d. alveg til að verða mjög góð á píanó, en ég er bara ekki tilbúin að leggja á mig það sem þarf til að verða góð á píanó.”
Þetta er setning sem ég er búin að segja á námskeiðunum mínum í 8 ár – og ég veit ekki af hverju ég tók píanó sem dæmi, en núna þarf ég að hætta að segja þetta!
Hvað haldið þið að hafi gerst?
Unglingurinn minn vildi uppfæra 10 ára gamalt barnahljómborð og það var keypt nýtt hljómborð á heimilið. Síðan kom í ljós að það er til app sem heitir SimplyPiano sem kennir manni að spila, með mjög einföldum og skemmtilegum hætti – mér finnst ég ekki þurfa að leggja neitt á mig.
Það þarf ekki að fara út í bæ og mæta til kennara og ég veit ég næ ekki að lýsa nægjanlega vel hversu öflugt þetta app er, en það kemur með skemmtilegar æfingar, hlustar á þig spila og gefur endurgjöf og svo reglulega færðu aðgang að fleiri og fleiri skemmtilegum lögum til að spila. Það dugar að æfa sig 10 mínútur á dag.
Núna spyr ég sjálfa mig. Af hverju var ég ekki tilbúin að leggja á mig það sem þarf til að verða góð á píanó? Svarið er, af því að ég var bara búin að ákveða að það væri svo rosalega erfitt og mikið mál.
Hver er niðurstaðan? Ef verkefnin eru bútuð niður í nægjanlega litla búta með hvatningu og aðhaldi – þá er allt nám svo miklu viðráðanlegra og jafnvel skemmtilegt. Það er einmitt nákvæmlega eins og stærðfræðinámskeiðin mín eru uppbyggð, nemendur þurfa reyndar að reikna í 30-60 mínútur á dag (en ekki bara 10 píanó mínútur) og fá hvatningu og aðhald frá mér.
Áskorun til þín. Hvað er það sem þig hefur alltaf langað til að læra eða gera, en hefur ekki gert? Er kannski einhver að kenna það með einföldum og skemmtilegum hætti?
Ertu með einhverjar spurningar? Vantar þig einhverja aðstoð eða ráð fyrir þinn ungling?
Ef svo er, hikaðu ekki við að senda mér póst með því að svara þessum pósti eða senda mer póst á hjalp@staerdfraedi.is
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
https://staerdfraedi.is/