Ég ætla að segja þér frá aðferð sem unglingurinn þinn gæti nýtt sér þegar hann er að læra – sérstaklega ef hann þarf að festa fljótt í minni það sem hann er að læra.
Almennt þegar við erum að læra nýtt efni, þá erum við að nota framheilann (vinnsluminnið) til að vinna mestu vinnuna. En þegar við sofum þá hefst heilinn handa við að koma þessu nýja efni í langtíma minnið. Heilinn flokkar hvað skiptir engu máli og hendir því og það sem þú ert búinn að segja honum að skiptir máli fer í langtíma minnið.
Almennt séð þurfum við því að sofa á milli þess sem við erum að læra nýtt efni, til að koma þessum upplýsingum í langtíma minnið okkar.
En rannsóknir hafa sýnt að það er leið fyrir okkur mannfólkið til að flýta fyrir því að koma þessum upplýsingum í langtíma minnið okkar og eflaust eru einhverjir sem eru að nýta sér það ómeðvitað.
Leiðina kalla ég “pásu-áhrifin” eða á ensku “the gap-effect”. Ef unglingurinn þinn er að læra nýtt efni þá getur hann tekið nokkrar handahófskenndar 10 sekúndna pásur á milli þess sem hann er að læra. Þá þarf hann bara aðeins að líta upp, hætt að hugsa um það sem hann var að læra og láta hugann reika. Í þessum 10 sekúndna pásum þá eru taugar í dreka (e. hippocampus) og berki (e. cortex) sem sjá um nám og minni sem fara á fullt og vinna á ógnarhraða við að koma þessum upplýsingum í langtíma minnið – svipað því sem gerist þegar við erum í djúpum svefni.
Andrew Huberman, prófessor í Stanford, mælir með því að læra í 2 mínútur, taka svo 10 sekúndna pásu, læra svo t.d. í 5 mínútur og taka svo 10 sekúndna pásu – sem sagt mikilvægt að lærdómstíminn sé handahófskenndur að lengd – en pásurnar alltaf um 10 sekúndur.
Ég hef sjálf staðið mig að því að læra smá, en stara svo út í loftið og detta smá út. Ég sé núna að þessi aðferð mín er alveg útpæld og æðisleg til að festa fljótar í langtímaminni það sem ég er að læra.
En þrátt fyrir að þessi rannsókn sé ekki mjög gömul, þá man ég eftir að hafa lesið mig til um Edison sem fann upp ljósaperuna, en hann einmitt tók svona meðvitaðar pásur inn á milli til að læra hraðar og fá hraðar hugmyndir að lausnum.
Það er gott fyrir unglingana okkar að læra um heilann, því hann getur farið illa með okkur ef við kunnum ekki nógu vel á hann og við getum líka virkjað hann til að verða enn betri ef við kunnum aðeins á hann.
Ertu með einhverjar spurningar? Ef svo er, hikaðu ekki við að hafa samband.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is
https://staerdfraedi.is/