Páfagaukalærdómur er ekki stærðfræði og í þessum pistli ætla ég að tala um kvíðavaldandi margföldunartöfluna, en
margföldunartaflan á stóran þátt í því að nemendur líta neikvætt á stærðfræði því oftast eiga nemendur að læra hana utanað – en stærðfræði snýst ekki um að læra utanað.
Nemendur þurfa að fá að læra margföldunartöfluna í skapandi umhverfi þar sem þeir læra að skilja margföldun og sjá hana fyrir sér til að öðlast góðan talnaskilning.
Rannsóknir sýna að því meiri áhersla sem er lögð á að læra hluti utanað því minna eru nemendur tilbúnir að hugsa um tengsl talnanna og þannig þróa talnaskilning.
Ef þú átt barn sem er að læra margföldunartöfluna og vilt leyfa því að leika sér aðeins og þróa betri talnaskilning þá er hérna skemmtilegt verkefni. Verkefnið gengur þannig fyrir sig að þú:
1. Prentar blöðin út
2. og klippir hvert blað í fjóra hluta.
3. Síðan leggur þú hlutana á borðið þannig að myndin/textinn vísar upp og ruglar þeim
4. og barnið þitt velur síðan einn hluta og í framhaldinu á að reyna að finna hina hlutana sem þýða það sama.
Það skiptir miklu máli að barnið þitt viti að þessi leikur snúist ekki um að vera fljótur – heldur að það virkilega njóti sín að rannsaka hvaða hlutar eru eins og flokka þá saman.
Ef þú ert með fleiri en eitt barn á heimilinu (og jafnvel ungling) sem hefði gott af því að þróa talnaskilning þá geta þau skipst á að gera – en þá þarf að bara að passa betur upp á að þetta sé ekki keppni eða spurning um að vera fljótur, heldur rannsaka og njóta sín.
Smelltu hér til að prenta út verkefnið.
Þetta verkefni er sótt af https://www.youcubed.org/ sem er rekinn af Stanford háskólanum í Bandaríkjunum sem hefur það að markmiði að miðla nýjustu rannsóknum sem nýtast í kennslu í stærðfræði.
Ef þú prófar að prenta þetta út og leyfa barninu þínu að vinna með þetta verkefni þá máttu endilega láta mig vita hvernig það gekk.
Ertu með einhverjar spurningar?
Eða vilt deila með mér einhverri sögu úr stærðfræði?
Ef svo er ekki hika við að svara þessum pósti eða senda mer póst á hjalp@staerdfraedi.is
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari