Ef við ætlum að ná góðum tökum á einhverju, þá verðum við að geta tjáð okkur í orðum um það efni. Íslenskan er þekkt fyrir að hafa hátt í hundrað orð yfir snjó. Ef ég ætla að verða mikill snjófræðingur, þá er nauðsynlegt fyrir mig að þekkja þessi ólíku orð til að geta tjáð mig betur um þetta fyrirbæri sem snjórinn er.
Sem sagt því fleiri orð sem við höfum til að tjá okkur um ákveðið efni, því næmari verðum við fyrir því efni og náum að skynja og skilja efnið betur.
En íslenskan er ekki eina tungumálið sem á óvenjulega mörg orð yfir sama fyrirbærið, því það eru til ættbálkar sem hafa óteljandi fjölda orða yfir grænan lit, þar sem sá litur skiptir þá máli og þeir þurfa að geta aðgreint þar á milli.
Það sem gerist þegar orðaforði okkar í ákveðnu efni eykst, er að þá verðum við næmari fyrir því sem við erum að vinna með. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við tölum upphátt um stærðfræði og tjáum okkur munnlega í stærðfræði. Það er erfitt fyrir nemendur að ná góðum tökum á stærðfræði, ef þeir kunna ekki að tala upphátt um það sem þeir eru að gera.
Ég hef fengið til mín nemendur sem vita ekki hvernig á að segja “x í öðru veldi”, þeir segja bara “x og tveir uppi”. Margir vita ekkert hvað “pí takkinn” heitir á vasareikninum, segja bara “æi þarna skrítni takkinn” og margir geta ekki spurt spurninga af því þeir eru ekki vanir að tala upphátt um stærðfræði.
Þú mátt endilega hvetja unglinginn þinn til að tala upphátt um stærðfræði, t.d. þegar hann er að læra í stærðfræði. Svo getur þú líka spurt hann hvað hann sé að gera í stærðfræði og beðið hann að segja þér aðeins frá því sem hann er að gera – þá kemur fljótlega í ljós hvort að hann hafi nægjanlegan orðaforða til að tjá sig um stærðfræðina.
Ef ekki, þá er bara að æfa sig, nemendur eru ótrúlega fljótir að fatta hvernig á að orða hlutina – þegar þeir fatta hvað það er sem þeir kunna ekki að segja.