Hérna kemur lýsing sem á við marga unglinga, ég ætla að kalla þennan ungling Loka.
Loki á erfitt með að sitja kyrr í stærðfræðitíma og vinna verkefni tímans. Hann starir út í loftið, truflar vini sína og fær sig ekki í að skrifa upp eitt dæmi. Ef hann nær að skrifa upp dæmið, þá hefur hann sig ekki í að reikna það. Hann upplifir að stærðfræði sé ekki skemmtileg, því að hann nennir ekki að gera það sem á að gera í tímanum.
Ég hef kennt mörgum unglingum í gegnum tíðina sem eru eins og Loki. Ég get því fullyrt að nemendum eins og honum finnst stærðfræði mjög skemmtileg, en umhverfið sem hann á að læra stærðfræði í, hentar honum ekki alveg nógu vel.
Það sem ég hef gert með nemendur eins og Loka, í kennslustund, er að ég hef skrifað dæmi upp á töflu, rétt honum síðan töflutússinn og leyft honum að klára dæmið. Það er eitthvað allt annað að standa upp við töflu og fá að leysa verkefnið standandi. Stundum hentar líka að leyfa fleiri en einum nemanda að leysa sama verkefni.
Nemendur eins og Loki blómstra í þessum aðstæðum. Það er svo augljóst að honum finnst gaman og skemmtilegt í stærðfræði og á alls ekki í erfiðleikum með að leysa krefjandi verkefni.
Þessi kennsluaðferð, að sitja alltaf kyrr og skrifa í reikningsbók, hentar ekki Loka. En þessi aðferð, að reikna á töflu, hentar líka nemendum sem eru kannski andstæðan við Loka. Það eru nemendur sem eru svo vandvirkir og uppteknir að því að öll dæmi og útreikningar líti rosalega vel út að þeir ná aldrei virkilega að njóta sín að reikna dæmin.
Ég hef verið svo heppin að hafa kennt í kennslustofum með margar töflur og því verið í góðri aðstöðu að bjóða nemendum upp á mismunandi kennsluaðferðir í tímum.
En unglingurinn minnn hefur líka nýtt þessa aðferð heima, enda hægt að fá litlar tússtöflur á góðu verði. Þegar nemendur eru að vinna á tússtöflu, þá eru þeir að hugsa um að leysa verkefnið, komast í gott flæði og eru ekkert að spá í að allt líti rosalega vel út, enda verður þetta allt saman strokað út á endanum.
Á netnámskeiðunum hjá mér, þá má segja að æfingavefurinn (sem nemendur vinna á eftir að hafa horft á kennslumyndböndin frá mér), sé nokkurs konar tússtafla. Þar sjá nemendur dæmi á skjánum, krota einhverja útreikninga á blað (ef þeir þurfa) og skrifa svo svarið. Um leið fá þeir svo endurgjöf hvort að svarið var rétt og ef það var rangt kemur útskýring hvernig á að reikna dæmið.
Hver er þá niðurstaðan með þessum skrifum? Eigum við að breyta um kennsluaðferð fyrir nemendur eins og Loka? Þess þarf ekki endilega. Reynslan mín sýnir að ef nemendur komast í flæði og finna hvað stærðfræði getur verið skemmtileg, þá eru meiri líkur á að þeir geti seinna meir og inn á milli einnig reiknað dæmi í reikningsbókina sína, sem er forsenda þess að geta reiknað krefjandi og stærri stærðfræðiverkefni í framtíðinni.
Veistu hvernig þinn unglingur er í stærðfræðitíma? Þú gætir spurt kennarann og í kjölfarið skoðað hvort að það henti að kaupa litla tússtöflu til að hafa heima.