fbpx

Ókeypis sumarspil

Ein af algengum mýtum um stærðfræði er að maður þurfi að læra svo mikið utan að. En það er ekki það sem stærðfræði gengur út á. Stærðfræði gengur nefnilega út á skilning og ef skilningurinn er til staðar þá er auðveldara að læra og skilja aðferðir sem hjálpa okkur að leysa verkefni á markvissari hátt.

En það er ekki skrítið að sumir nemendur haldi að stærðfræði sé utanbókarlærdómur. Flestir kannast við togstreituna við að þurfa að læra margföldunartöfluna utan að. Samkvæmt Jo Boaler, sem er prófessor í Stanford háskólanum í Bandaríkjunum, þá á ekki að skylda nemendur til þess að læra margföldunartöfluna utan að.

ókeypis sumarspil

Það sem skiptir mestu máli er að nemendur skilji út á hvað margföldun gengur. Hvað þýðir til dæmis 7×3? Það er ekki mikill tilgangur að læra margföldunartöfluna utan að ef skilningurinn á margföldun er ekki fyrir hendi.

En hvernig er þá best að kenna margföldunartöfluna? Það þarf fyrst að sjá til þess að nemendur skilji margföldun. Ég veit um eina frábæra leið til þess, sem kemur einmitt frá Jo Boaler, en hún bjó til spil sem er aðgengilegt frítt á netinu sem foreldrar og kennarar geta prentað út.

Ég hef sagt frá þessu spili áður en það eru líklega komin tvö eða þrjú ár síðan, svo það er tilvalið að minnast á þetta spil aftur.

Þetta er tilvalið “sumarspil” sem við foreldrar getum notað til að halda börnunum okkar við í stærðfræði og leyfa þeim að líta á stærðfræði sem leik.

Það eina sem þú þarft að gera er að prenta út þessi blöð (vefslóð kemur hérna á eftir), klippa þau niður. Síðan lætur þú öll spilin snúa upp og barnið þitt á að velja tvö spil sem það telur að passi saman.

Þegar barnið er búið að velja tvö spil, þá þarf það að segja upphátt hvers vegna þessi spil gefa sömu tölu. Þannig þjálfa börnin sig í að tala upphátt um stærðfræði, sem er svo mikilvægt til að ná góðum skilningi.

Það er mjög mikilvægt að barnið fái sinn tíma til að finna spil sem passa saman, þetta er alls ekki spurning um hraða, heldur skilning. Einnig er mikilvægt að leyfa barninu að skýra út á sínum hraða hvers vegna það valdi þessi tvö spil og hvers vegna þau passa saman. Ef það getur ekki skýrt það út með orðum, þá þarf bara að gefa barninu meiri tíma.

Hérna er slóð til að prenta út spilið:
https://youcubed2.wpenginepowered.com/wp-content/uploads/2017/03/Math-Card-Handout.pdf

Hérna er slóð á upplýsingar um hvernig spilið virkar:
https://www.youcubed.org/tasks/math-cards/

Hérna er myndband sem sýnir síðan barn spila spilið:
https://www.youcubed.org/resources/math-cards-3-6-video/

Það er einnig sniðugt ef tveir spila þetta spil saman, þar sem þeir gera þá til skiptis. Þetta er mjög skemmtilegt, svo lengi sem annar hvor aðilinn er ekki að grípa frammí eða búa til tímapressu á þann sem á að gera.

Ef þú átt barn sem er á yngsta stigi eða jafnvel miðstigi, þá hvet ég þig til að prófa þetta spil. Ef þú átt barn og ungling, þá væri líka mjög sniðugt að leyfa þeim að spila saman og það þjálfar líka unglinginn að tjá sig upphátt í stærðfræði. T.d. getur unglingur þjálfað sig í að segja “margföldun er víxlin aðgerð, þess vegna…” og kenna þá um leið barninu að nota stærðfræðihugtök.

Ég hef svo frábæra reynslu af þessu spili, sem er reyndar búið að taka nokkrum breytingum síðan ég prentaði fyrsta eintakið mitt út og lét krakka spila spilið.

Ef þú þekkir einhvern sem á barn sem gæti haft gaman af þessu spili, þá máttu endilega áframsenda þennan póst á viðkomandi.

Ef þú prófar þetta spil, þá máttu endilega láta mig vita hvernig gekk með því að svara þessum pósti.


Posted

in

by

Tags: