Það er liðin tíð að hafa stór lokapróf í grunn- og framhaldsskólum. Í stað þeirra eru skólar með minni verkefni eða próf til að meta stöðu nemenda og veita þeim endurgjöf.
Grunnskólarnir fá gagnrýni fyrir að undirbúa nemendur ekki nógu vel fyrir framhaldsskólana og framhaldsskólarnir fá gagnrýni fyrir að undirbúa nemendur ekki nógu vel fyrir háskólana. Þessi gagnrýni á fyrst og fremst við greinar, eins og stærðfræði, sem byggja á ákveðnum grunni.
Ég veit það sjálf af eigin reynslu að það er ekki mikið mál fyrir nemendur að ná tökum á einstökum þáttum í stærðfræði, en því miður þá eru nemendur fljótir að gleyma því sem þeir læra.
Það er staðreynd að sú þekking sem við notum ekki fjarast út, en sú þekking sem við fáum tækifæri á að rifja upp og við notum reglulega helst betur í minni.
En hvað er hægt að gera öðruvísi svo nemendur festi betur í minni það sem þeir læra í stærðfræði?
Kosturinn við stóru lokaprófin í “gamla daga” var að það var gott tækifæri fyrir nemendur að rifja aftur upp (sem þeir voru kannski búnir að gleyma) og festa þannig enn betur í minni þá þekkingu sem mikilvæg er í stærðfræði til að geta byggt á seinna.
Svarið er samt ekki endilega að taka upp stór lokapróf í grunn- og framhaldsskólum, en kannski er hægt að útfæra kennsluna þannig að nemendum gefst kostur á að fara aftur í stöðumat á því sem þeir kunna í lok annar. Stöðumatið í lok annar gæti þá verið með þeim hætti að kanna hvaða þekking er enn til staðar og hvaða þekkingu þarf að rifja upp og skerpa á svo nemandinn geti enn talist hafa náð ákveðnum hæfniviðmiðum. Þetta þarf alls ekki að vera allt námsefni annarinnar, heldur væri hægt að velja það efni sem allur grunnur og næsta efni í stærðfræði byggir á.
Stöðumat í lok annar ætti ekki einungis að vera það eina sem hægt væri að gera til að tryggja að nemendur muni og nái að festa enn betur í minni það sem þeir hafa lært.
Kennsluaðferðir í stærðfræði eru margar og mismunandi. Það að sitja einn með sjálfum sér og reikna er ekki sérstaklega góð aðferð til að festa í minni það sem nemandinn er að læra. Aðferðin að kenna öðrum er mjög góð leið til að festa í minni það sem nemendur hafa lært en til eru ýmsar leiðir til að útfæra það í kennslustofu.
Hefur þú heyrt þinn ungling segja að hann sé fljótur að gleyma því sem hann lærir?
Ef svo er, þá getur þú ráðlagt honum að tala meira upphátt þegar hann er að læra heima og jafnvel ímynda sér að hann sé að kenna öðrum það efni sem hann er að fara yfir. Ég er mjög hrifin af aðferðinni sem ég kalla “autt blað” þegar nemendur eru einir að læra heima. Þú getur lesið þig nánar til um þá aðferð hér.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is