Eftir áratuga reynslu sem stærðfræðikennari á framhaldsskólastigi þá get ég staðfest að margföldunartaflan spilar stóran þátt í velgengni nemenda í stærðfræði. Það er mjög sjaldgæft að ég fái til mín nemendur í fyrsta þreps áfanga sem kunna margföldunartöfluna, en þegar það gerist þá er mjög líklegt að viðkomandi nemandi geti tekið tvo stærðfræðiáfanga á einni önn.

Til útskýringar þá eru fyrsta þreps áfangar í stærðfræði í framhaldsskólum fyrir nemendur sem náðu ekki B í grunnskóla. Ef nemendur fengu C, þá þurfa þeir að taka einn áfanga á þrepi 1 í framhaldsskóla og ef þeir fengu D þá þurfa þeir að taka tvo áfanga á þrepi 1 í framhaldsskóla.
Ég segi oft að stærðfræði sé ekki páfagaukalærdómur og að nemendur eigi ekki að þurfa að læra margföldunartöfluna utan að eins og páfagaukar.
En það er samt mjög mikilvægt að allir nemendur kunni margföldunartöfluna utan að – í gegnum skilning, sem á endanum, með þjálfun í færni, ætti að leiða til þess að nemendur kunna töfluna utan að.
Ég er alltaf svo spennt þegar ég fæ til mín nemendur sem hafa gott vald á margföldunartöflunni og er forvitin að vita hvernig þeir lærðu margföldunartöfluna. Flest svörin sem ég fæ er að þeir muna það ekki alveg, en margir segjast hafa lært margföldunartöfluna með því að spila Minecraft. Svo var einn nemandi sem sagði mér að hann hefði lært margföldunartöfluna í skólanum út frá skemmtilegum skrímslum, þar sem ólík skrímsli áttu sína töflu. Í hverri viku var verið að vinna með nýtt skrímsli og hann gat ekki beðið eftir að kynnast næsta skrímsli.
Skv. Aðalnámskrá grunnskólanna eiga nemendur við lok 4. bekkjar að geta tekið þátt í að þróa hentugar aðferðir sem byggja á eigin skilningi við að reikna margföldunardæmi.
Það er bara minnst einu sinni á margföldunartöfluna í aðalnámskránni og það er ekkert talað um að nemendur þurfi að þjálfa færni og ná góðum tökum á margföldunartöflunni.
Nemendur sem hafa þjálfað færni í að læra margföldunartöfluna utan að, eru ekki lengur að beita reikningshugsun þegar þeir sjá t.d. 4×8 – heldur eru þeir að nýta sér að sækja þessar upplýsingar í málminnið (e. verbal memory). Þetta skiptir miklu máli þegar nemendur eru komnir á unglingastig, því þeir nemendur sem þurfa að fletta upp 4×8 eða slá það inní vasareikni eru að eyða of mikilli orku og tíma í eitthvað sem ætti að vera mjög lítill hluti af því verkefni sem þeir eru að leysa eða vinna með.
Ég hef verið að skrifa vikulega greinar á stærðfræði.is í mörg ár og fyrir fjórum árum skrifaði ég skemmtilega grein um Kvíðavaldandi margföldunartöfluna þar sem ég vísa á skemmtilegt (frítt) spil sem foreldrar geta prentað út og notað heima.