fbpx

Mælingar og samanburður góð hvatning?

Hjarta mitt slær með nemendum sem eiga erfitt með stærðfræði, því ég veit að þeir geta snúið blaðinu við og orðið framúrskarandi – ef þeir vilja og eru tilbúnir að leggja á sig auka vinnu.

Ég er því alltaf spennt að lesa um rannsóknir sem varpa ljósi á hvernig hægt er að hvetja þessa nemendur til að leggja meira á sig.

Ég rakst nýverið á eina slíka rannsókn. Hún var gerð í Þýskalandi (Hermes o.fl., 2021) og veitir dýrmæta innsýn í hvernig hvatning og frammistöðumat getur haft áhrif á nemendur sem glíma við námsörðugleika í stærðfræði. Um 400 fjórðubekkingar í sjö grunnskólum tóku þátt í fimm vikna námsverkefni sem byggði á tölvutengdu stærðfræðinámi með endurgjöf.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að frammistöðumat sem byggir á framförum (en ekki aðeins lokaniðurstöðu) sé sérstaklega árangursríkt fyrir nemendur sem standa höllum fæti. Slíkt mat hjálpar einnig til við að gera sýnilegt, að það að leggja á sig í stærðfræði skilar sér og að geta nemenda sé ekki fastmótuð.

Nemendur í tilraunahópnum fengu endurgjöf í formi röðunarlista (stigalista) sem sýndi hversu mikið þeir höfðu bætt sig miðað við eigin fyrri frammistöðu – í samanburði við bekkjarfélaga. Þetta var gert með forriti sem gaf stig út frá framförum, frekar en heildarniðurstöðum. Börnin sáu því bæði hversu mikið þau voru að bæta sig og hvernig þau stóðu í samanburði við aðra.

Þessi nálgun – að sjá frammistöðu allra í bekknum – hafði hvorki neikvæð áhrif né dró úr hvatningu hjá þeim sem voru sterkir námslega.

Hvernig getum við nýtt þessar niðurstöður til að hvetja nemendur sem eiga erfitt með stærðfræði til að bæta sig og leggja meira á sig?

Það hljómar einfalt, en það þarf að vera einhver mæling í gangi. Nemendur geta ekki bætt sig nema þeir viti hvar þeir standa og fái tækifæri til að bæta sig. Um leið og þeir sjá mælanlega (ekki einungis huglæga) framför verða þeir tilbúnari að leggja meira á sig. Vandamálið í dag er að oft vantar slíkar mælingar, sem gerir nemendum erfitt fyrir að átta sig á eigin framförum.

Hvernig er annars staðan á þínum unglingi? Ertu með einhverjar spurningar sem tengjast stærðfræði, námsmati eða grunnskólanum almennt? Ef svo er, hikaðu ekki við að senda á mig, með því að svara þessum pósti.


Posted

in

by

Tags: