fbpx

Listin að leiðast

Fyrir mörgum árum var toppurinn að fá að horfa á bíómynd saman í kennslustund. Í dag getur verið mjög erfitt fyrir unglinga að halda einbeitingu og horfa á eina bíómynd. Símarnir eru orðnir mikið samkeppnistæki og það er nánast allt leiðinlegra en að vera í símanum.

Ef við ætlum að æfa einbeitingu, þá verðum við að æfa okkur í að leiðast!

En hvernig þjálfum við einbeitingu?

Einbeiting er ekki vani heldur hæfileiki sem við getum svo sannarlega þjálfað. Það þýðir ekkert að segja “ég ætla að að setjast niður daglega í 20 mínútur til að ég verði betri í að einbeita mér”. Það verður enginn betri í einbeitingu við það. Einbeiting er eitthvað sem við þurfum að þjálfa eins og hvern annan hæfileika.

Ef ég hugsa einbeitingu út frá því að ná að einbeita sér að krefjandi verkefni t.d. í stærðfræði, þá er gott að fara í gegnum eftirfarandi skref:

  1. Fara með símann í annað herbergi (t.d. setja hann í einhverja skúffu í eldhúsinu).
  2. Ákveða að æfa sig í að leiðast. Það er allt í lagi þó að stærðfræðibókin sé ekki jafn spennandi og síminn. Það getur enginn keppt við símann – ekki einu sinni góð bíómynd.
  3. Endurtaka hugsanir eins og “hvað get ég lært nýtt” og beita rannsóknar hugarfari eins og verið sé að leysa krefjandi verkefni á rannsóknarstofu.
  4. Gott er að stilla eggja- eða eldhúsklukku á 20 mínútur með það markmið að æfa sig í þrautseigju, að gefast ekki upp. Síðan er hægt að auka við þennan tíma ef vel gengur.

Ef þú upplifir að þinn unglingur þurfi að þjálfa sig í einbeitingu og þrautseigju, þá verður þú að láta hann vita að það er ekki vænlegt til árangurs ef hann er með símann hjá sér haldandi það að það sem hann sé að fara að gera sé skemmtilegra en síminn.

Það væri gaman að heyra frá þér! Er unglingurinn þinn að ná að einbeita sér við nám eða er það mikil áskorun fyrir hann?

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari


Posted

in

by

Tags: