fbpx

Líkamsstaða hefur áhrif

Í dag ætla ég að fjalla um hvernig líkamsstaða hefur áhrif – bæði jákvæð og neikvæð. Rannsóknir hafa sýnt að þegar við stöndum eins og súpermann (upprétt, rétt rúmlega axlarbreidd á milli lappa með hendur á mjöðmum) eykst sjálfstraust okkar og margar rannsóknir hafa sýnt fram á að ákveðnar líkamsstöður geta haft jákvæð og neikvæð áhrif á það hvernig okkur líður!

En skiptir máli hvernig unglingurinn þinn situr í tímum? Svarið er já!

Ég sem kennari get horft yfir heilan bekk og séð, með því að horfa á líkamsstöðu nemenda, hvort að nemendur séu að meðtaka það sem ég er að segja. Oft eru nemendur kannski ekki alveg í stuði fyrir stærðfræði, en þá hjálpar ekki að hanga fram á borðið. En er munur á nemendum sem sitja alveg uppréttir annars vegar og örlítið hoknir hins vegar.

Svarið er líka já!

Ég var að lesa rannsókn sem gerð var á tveimur hópum nemenda, þar sem annar hópurinn samanstóð af nemendum sem sátu hoknir (e. slumped), en hinn hópurinn var teipaður með sjúkraþjálfunar teipi til að halda alveg uppréttri stöðu.

Hópurinn sem var teipaður í uppréttu stöðuna upplifði meira sjálfstraust, betri einbeitingu, betra skap og minni hræðslu og stress við lausn verkefna, miðað við hópinn sem sat hokinn. Það sem meira var, er að nemendur í hokna hópnum notuðu færri jákvæð orð, töluðu mikið í fyrstu persónu og töluðu almennt hægar.

Hvernig getur þú nýtt þér þessar upplýsingar fyrir þinn ungling?

Láttu hann vita að líkamsstaða hans hefur áhrif á líðan og einbeitingu og þegar hann er að læra heima eða í tímum og þarf að hugsa – þá er mjög gott að fara í alveg upprétta líkamsstöðu (sitjandi) til að fá betri hugmyndir, meira sjlfstraust og betra skap.

Ég kenni nemendum á námskeiði hjá mér að fljótlegasta leiðin til þess að vera jákvæður (og fá fleiri hugmyndir að lausn verkefna) er að brosa. Þegar við brosum, þá verðum við strax jákvæð, en ég þarf núna að bæta við og láta nemendur vita að það er gott t.d. í miðju prófi að fara í upprétta líkamsstöðu til að fá betri hugmyndir og upplifa minna stress!

Miðlaðu þessu endilega til þíns unglings! Það er svo frábært fyrir unglinga að vita að þeir geta með auðveldum hætti stjórnað því hvernig þeim líður og hvernig þeir hugsa – með því einu að breyta um líkamsstöðu og brosa.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: