Allir geta lært stærðfræði og allir geta orðið góðir í stærðfræði, en unglingnum þínum þarf að langa til þess að ná tökum á stærðfræði og vera tilbúinn að leggja á sig það sem þarf.
Núna er haustönn grunnskólanna senn á enda og margir skólar nýta tækifærið og hafa verkefni eða próf fyrir jólafrí. Margir nemendur eru eflaust farnir að hugsa um að þeim langi til að bæta sig í stærðfræði.
En við mannverurnar eru mjög vanabundnar. Það þarf svo miklu meira að gerast heldur en að langa til þess að ná tökum á stærðfræði.
Ef unglingurinn þinn hefur ekki sýnt stærðfræði mikinn áhuga, hefur ekki reynt að læra heima og stendur höllum fæti í stærðfræði – þá þarf að breyta miklu til að snúa blaðinu við, en það þarf ekki endilega að vera erfitt ef viðhorfið er rétt.
Það er eins og fyrir kyrrsetu einstakling að langa til þess að hlaupa maraþon. Auðvitað getur hann það, en það er mjög mikið sem þarf að breytast til þess að hann nái markmiði sínu.
Ég hef kennt mörgum unglingum (í kennslustofu) sem langar svo rosalega mikið til þess að ná góðri lokaeinkunn í stærðfræði. En þeir eru varla búnir að sleppa þessari hugsun þegar síminn er kominn á loft og þeir byrja að spjalla við sessunaut sinn.
Ef nemendur breyta engu, þá breytist ekkert.
Samkvæmt minni reynslu er það einkum tvennt sem hindrar flesta unglinga að snúa blaðinu við í stærðfræði. Það er símanotkun og hvernig þeir nota afsakanir.
Símanotkun
Unglingar hafa almennt lítið úthald, því þeir eru vanir að ef það kemur smá dauður tími eða ef þeim leiðist, þá grípa þeir strax símann. Flestir unglingar þurfa því að þjálfa sig í að fara ekki í símann þegar þeir eru búnir að ákveða að taka frá tíma til að læra. Best er að hafa símann alls ekki sýnilegan eða innan seilingar. Ef unglingurinn þinn ákveður að fara að læra heima hjá sér, þá er gott að setja símann í einhverja skúffu í eldhúsinu (á hljóðlausa stillingu).
Afsakanir
Það er ekkert mál að finna afsakanir. Það er meir að segja hægt að setjast niður og skrifa niður endalaust af afsökunum hvers vegna unglingurinn þinn getur ekki lært akkúrat núna, eins og hann hafði kannski planað. Hann gæti t.d. verið rosalega þreyttur eða rosalega svangur, en lykillinn er að segja við sjálfan sig “ég er rosalega þreyttur og svangur en ætla samt að læra”. Þetta er góð æfing í að láta afsakanir hafa minna og minna vægi.
Eitt af því fyrsta sem ég tala um á námskeiðum hjá mér, er að gera nemendum grein fyrir muninum á að langa til að ná góðum tökum á stærðfræði og svo að ætla að ná góðum tökum á stærðfræði. En munurinn liggur í því að ef við notum orðið langa, þá gefum við afsökunum tækifæri á að trufla áætlanir okkar, en ef við notum orðið ætla, þá erum við að gefa til kynna að við ætlum að ná tökum á stærðfræði þrátt fyrir ýmsar hindranir og áreiti sem eru alltaf að reyna að koma í veg fyrir það.
Ég hef skrifað um orðatiltækið að fara yfir Rubicon ánna. En það er einmitt vísun í það, að um leið og nemendur eru búnir að taka ákvörðun (t.d. um að ætla að ná góðum tökum á stærðfræði) þá eru þeir ekki lengur að gefa heilanum tækifæri á að finna einhverjar afsakanir.
Hvernig er staðan á þínum unglingi, finnur þú að honum langar rosalega mikið að ná tökum á stærðfræði en er ekki alveg tilbúinn að gera það sem þarf eða áttar sig jafnvel ekki á því hvað hann þarf að gera?