Í lok september var Menntakvika á vegum Háskóla Íslands þar sem á dagskrá voru margar spennandi málstofur sem tengdust meðal annars stærðfræði.
Ein málstofan var með erindi sem bar nafnið Er mikilvægt að læra margföldunartöfluna betur í grunnskóla?
Sú sem fjallaði um þetta erindi var Björg Pétursdóttir, aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. En hún gerði starfendarannsókn í tengslum við þetta viðfangsefni þar sem hún kannaði hversu góð tök nemendur á fyrsta og þriðja ári í Kvennó hefðu á margföldunartöflunni.
Í stuttu máli sagt, voru 5-10% nemenda í Kvennó sem höfðu ekki nógu góð tök á margföldunartöflunni. En hafa ber í huga að allir þessir nemendur útskrifuðust með B eða hærra í stærðfræði í grunnskóla og myndu því teljast hafa góðan grunn í stærðfræði.
Þeir nemendur sem ná ekki B í stærðfræði við lok 10. bekkjar, þurfa að byrja á að taka einn til tvo áfanga á fyrsta þrepi í framhaldsskóla. Þetta eru þeir áfangar sem ég hef mest verið að kenna og því miður, þá er einungis örlítill hluti nemenda, sem fær C og D í stærðfræði í 10. bekk, sem kann margföldunartöfluna og það háir þeim mikið í stærðfræði.
Ég held að allir kennarar sem kenna eða hafa kennt fyrsta þreps áfanga í framhaldsskóla geti tekið undir með mér, að það sé mikilvægt að nemendur hafi náð góðum tökum á margföldunartöflunni þegar komið er á unglingastig.
Sumir nemendur halda að ef þeir mega alltaf hafa vasareikni við höndina, þá sé óþarfi að kunna margföldunartöfluna, en það er ekki rétt.
Þegar stærðfræðin verður flóknari, eins og hún er á unglingastigi, þá þurfa nemendur að hafa góðan skilning á margföldunartöflunni til að geta unnið einföld reikningsdæmi.
Tökum til dæmis þetta þáttunardæmi: 14a + 21b
Ef nemendur eru beðnir að þátta þetta dæmi (taka hæsta sameiginlega margfeldi út fyrir sviga), þá er nauðsynlegt að kunna margföldunartöfluna. Þeir nemendur sem ætla að prófa sig áfram með vasareikni til að reyna að finna út hvaða sameiginlega þátt þessar tvær tölur hafa, verða allt of lengi að finna það út með vasareikni.
Nemendur sem aftur á móti kunna margföldunartöfluna ættu á nokkrum sekúndum að sjá að 7 er sameiginlegur þáttur sem hægt er að taka út fyrir sviga (því 2 x 7 = 14 og 3 x 7 = 21).
Svarið við þessu dæmi væri því: 7(2a+3b)
Þrátt fyrir að stærðfræði eigi ekki að snúast um að vera fljótur að reikna eða fljótur að fatta, þá er mjög mikilvægt að nemendur hafi náð að þjálfa ákveðna grunnfærni. Alveg eins og að nemandi í 10. bekk ætti ekki að þurfa að nota puttana til að telja 5 + 5, heldur vita strax að svarið er 10. Ekki af því að hann er búinn að læra það utan að, heldur af því að hann hefur góðan talnaskilning og hefur þjálfað ákveðna færni í að reikna svona einföld dæmi.
Skoðun mín er mjög skýr, þegar kemur að margföldunartöflunni: nemendur þurfa að ná mjög góðum tökum á margföldunartöflunni fyrir unglingastig grunnskóla. Þeir nemendur sem ná ekki góðum tökum á töflunni fyrir þann tíma, munu mjög líklega lenda í vandræðum með stærðfræðina á unglingastigi.
En ég hef einnig mjög sterka skoðun á því hvernig á að kenna nemendum margföldunartöfluna. Það er að mínu mati alveg galið að láta nemendur læra hana utan að eins og páfagauka. Það er liðin tíð og gerir ekkert annað en að skapa togstreitu gagnvart stærðfræði og jafnvel verða til þess að ungum stærðfræðingum verður illa við stærðfræði.
Það þarf að kenna margföldunartöfluna með þeim hætti að nemendur skilji hvað hún þýði og þjálfist síðan í að nota hana. Það eru til skemmtileg spil til að þjálfa nemendur í margföldunartöflunni og svo eru eflaust til einhver skemmtileg smáforrit sem ganga út á það sama.
Ef þú ert með barn á yngsta stigi eða miðstigi, þá mæli ég með því að þú þjálfir það heima í að vinna með margföldunartöfluna. Hérna er stutt grein sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum, með nánari upplýsingar um spil sem þú getur prentað út til að þjálfa barnið þitt í margföldunartöflunni.