Eins og kemur líklega fæstum á óvart, þá eru nemendur mismunandi og það er ekki til nein ein kennsluaðferð eða ein stærðfræðibók sem er best og hentar öllum. En stóra spurningin er, er þinn unglingur með kennsluefni við hæfi í stærðfræði?
Kennslubækur í stærðfræði sem kenndar hafa verið síðustu áratugina eru ólíkar. Sumar henta nemendum sem standa höllum fæti í stærðfræði og aðrar fá nemendur til að dýpka skilning sinn á stærðfræði.
Þegar ég var að kenna stærðfræði í grunnskóla, þá voru stærðfræðibækurnar Almenn stærðfræði fyrir unglingastig enn notaðar að mestu leyti í kennslu og Átta-tíu bækurnar voru að smátt og smátt að koma í stað þeirra. Í dag eru flestir skólar að nota Skala bækurnar í stærðfræði á unglingastigi. Allar þessar bækur eru góðar á sinn hátt, en þær eru mjög ólíkar og henta ólíkum nemendum.
Ég ætla ekkert að fjalla um hvernig þessar bækur styðja við hæfniviðmiðin í núgildandi aðalnámskrá grunnskóla. Það er ný aðalnámskrá væntanleg og það stendur einnig til að búa til mikið efni sem styður þá sérstaklega við aðalnámskránna.
Almenn stærðfræði hentar sérstaklega vel nemendum sem standa höllum fæti í stærðfræði og þurfa að byggja upp góðan grunn. Bókin er byggð upp með skýrum sýnisdæmum, markvissum æfingum og sjálfsprófum í lok hvers kafla. Samkvæmt minni reynslu þá hentar þessi bók sérstaklega vel þegar nemendahópurinn er stór, nemendur þurfa að geta unnið sjálfstætt í tímum og þurfa að geta unnið sjálfstætt heima.
Átta-tíu bækurnar eru bækur sem henta nemendum sem hafa góðan grunn í stærðfræði. Þær gefa nemendum kost á að kafa dýpra, nota rannsóknarhugarfar við að leysa verkefnin og fá nemendur til að uppgötva sjálfir ýmsar aðferðir í stað þess að vera mataðir af staðreyndum. Samkvæmt minni reynslu er mikil áskorun að kenna þessar bækur með stóran hóp nemenda, þar sem nemendur með slakan grunn geta ekki unnið sjálfstætt og eiga mjög erfitt með að læra sjálfstætt heima.
Skala bækurnar eru einhvers staðar þarna mitt á milli. Henta meðal nemandanum.
Í grunninn eru allar þessar bækur að kenna það sama, en nálgunin er ólík. Það fer því algjörlega eftir hverjum nemanda hvaða nálgun hentar honum best.
En aftur að spurningunni sem ég lagði fram í upphafi: er unglingurinn þinn með kennsluefni við hæfi í stærðfræði?
Ef unglingurinn þinn er ekki í neinum vandræðum með stærðfræðina, þá má gera ráð fyrir að hann sé með kennsluefni við hæfi. Ef unglingnum þínum finnst stærðfræðin of erfið eða allt of létt, þá má gera ráð fyrir að hann sé ekki með námsefni við hæfi.
Ef þú vilt halda betur utan um stærðfræðinámið hjá þínum unglingi, þá væri gott að fylgjast með hvaða námsefni hann er með og hvort að það henti honum. Það þarf ekki nema einn fund með stærðfræðikennaranum í upphafi skólaárs til að fara yfir stöðu hans í stærðfræði og sjá hvort að annað efni gæti hentað betur tímabundið (hvort sem það er til þess að byggja upp betri grunn eða gefa kost á að kafa dýpra í efnið).
Mikilvægast, að mínu mati, er að hann fylgi því efni sem verið er að fara yfir samkvæmt kennsluáætlun, en hafi tækifæri á að sjá aðra framsetningu á sama efni úr öðru kennsluefni.
Ef það kemur í ljós að annað námsefni hentar betur, tímabundið, passaðu þá sérstaklega að hann fái ekki stimpilinn “aðlagað efni” því þá hefur hann engin tök á að útskrifast með B í lok 10. bekkjar. Allar þessar ólíku bækur eru í grunninn að kenna sama efnið, með annarri framsetningu og því gæti aðgangur að annarri bók eða öðru auka efni verið það eina sem þinn unglingur þarf til að vera með kennsluefni við hæfi.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is