fbpx

Kennsla eftir covid

Núna eru tæplega fimm ár síðan COVID-19 faraldurinn barst til Íslands. Ég hef verið að lesa rannsóknir sem gerðar voru stuttu eftir að faraldurinn hófst og hvernig skólar voru í stakk búnir til að takast á við þessar breyttu aðstæður.

kennsla eftir covid

Ég velti núna fyrir mér hvort eitthvað hafi breyst á þessum fimm árum og þá er ég fyrst og fremst að hugsa um unglingastig grunnskólanna. Þeir skólar sem voru langt á eftir í tækni og voru nánast eingöngu með staðbundið nám, hefur eitthvað breyst hjá þeim skólum?

Ég ætla að taka hérna tvö dæmi úr eigin lífi sem eru kannski ýktustu dæmin úr byrjun á COVID-19 og hvernig það hafði áhrif á fjarkennslu, álag á kennara, samskipti við nemendur og aðgengi nemenda að námsgögnum og kennurum.

Dóttir mín var á þessum tíma í 10. bekk í grunnskóla þar sem allir nemendur höfðu Chromebook fartölvur til afnota. Allt kennsluefni var á fartölvunum eða aðgengilegt í gegnum netið, öll skilaverkefni voru sett á netið og nemendur skiluðu þeim í gegnum netið. Í þessum skóla var vendikennsla, sem þýddi að engar innlagnir voru í rauntíma hjá kennara heldur aðgengilegt þegar það hentaði nemendum.

Þessu var ekki alveg eins háttað í grunnskólanum sem vinkona mín var með tvær unglingsstúlkur í. Í þeim skóla var ein tölvustofa og nemendur voru ekki með nein tæki (hvorki spjaldtölvur né fartölvur) til eigin nota. Margir kennarar notuðu Mentor til að setja inn heimavinnu, en heimavinna var unnin á pappír í skólanum og skilað til kennara á pappír.

Þegar færa þurfti kennsluna á unglingastigi yfir á netið, þá fengu foreldrar og nemendur í skóla dóttur minnar einn tölvupóst, sem sagði “Í fyrramálið verður kennslan í gegnum Google Meet…”. Það var ekkert panikk og allir héldu bara áfram að vinna í sínum verkefnum. Ég er ekki að segja að þetta hafi verið auðvelt fyrir kennara og nemendur – en tæknin og aðgengi var ekki eitthvað nýttt sem allir þurftu að kynna sér og leggja mikla auka vinnu í.

En í grunnskólanum sem unglingar vinkonu minnar voru í, var þetta mun flóknara. Enginn nemandi hafði aðgang að tæki (spjaldtölvu eða fartölvu) frá skólanum, svo eins og í hennar tilfelli þurftu allt í einu þrír á heimilinu að nota einu fartölvuna sem var til þar. Nemendur voru ekki vanir að nota tölvupóst, það var ekkert námsumsjónarkerfi til að halda utan um verkefni og verkefnaskil.

Það þarf ekki að rannsaka mikið til að sjá að aðstöðumunurinn hjá kennurum og nemendum í þessum tveimur skólum var ólíkur, þegar kom að lokunum vegna faraldursins.

En núna eru sem sagt liðin fimm ár. Tækninni hefur fleygt fram, fleiri og fleiri grunnskólar eru farnir að nota námsumsjónarkerfi þar sem öll samskipti við nemendur geta farið fram, flest verkefni eru aðgengileg í gegnum netið og þeim einnig skilað í gegnum námsumsjónarkerfi.

Það væri frábært að heyra frá þér, ef það kæmi til skyndilegrar ófyrirséðar lokunar í dag og færa þyrfti alla kennslu hjá þínum unglingi tímabunið yfir á netið, hvernig myndi það ganga? Þ.e.a.s. hefur unglingurinn þinn aðgang að tæki (spjaldtölvu eða fartölvu) sem hann getur notað í fjarkennslunni, eru öll verkefni og gögn sem hann þarf aðgang að aðgengileg á tækinu eða í gegnum netið? Er hann vanur að hafa samskipti við kennara í gegnum námsumsjónarkerfi?


Posted

in

by

Tags: