fbpx

Kennaraskortur

Ef við viljum hafa gott menntakerfi, þá þurfum við góðan grunn til að byggja á (góða námskrá, góða stjórnendur, gott námsefni, samræmt námsmat) og góða kennara.

kennaraskortur

Það er til nóg af frábærum menntuðum, metnaðarfullum og góðum kennurum, en þeir eru margir hverjir ekki að kenna, þar spila laun og álag stóran þátt. Þetta er staðreynd sem ekki er hægt að horfa fram hjá.

Kennaraskortur – hvað er til ráða?

Í dag eru um 20% þeirra sem eru að kenna í grunnskólum landsins ekki kennaramenntaðir. Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju skólar mega fela það. Hvers vegna er ekki skylda að tilgreina á vefsíðum skóla hver sé leiðbeinandi og hver sé kennari?

Í dag eru flestir skólar sem tilgreina hvað hver starfsmaður er að gera t.d. “stærðfræði” ef viðkomandi er að kenna stærðfræði. Mér finndist réttast að þar kæmi fram “leiðbeinandi í stærðfræði” eða “stærðfræðikennari” – eftir því sem við á.

Annað sem mér finnst verið að fela gagnvart foreldrum, er að flestir sem kenna stærðfræði í grunnskólum hafa ekki menntað sig sérstaklega í stærðfræðikennslu. Þeir sem eru að kenna í grunnskólum ráða nefnilega ekki hvað þeir kenna. Starfsmaður í grunnskóla getur verið látinn kenna stærðfræði, þrátt fyrir að hann treysti sér ekki til þess, sé jafnvel illa við stærðfræði og hafi ekki góðan grunn í stærðfræði. Það þarf ekki stærðfræðing til að reikna út að það hefur slæm áhrif á nemendurna.

Kennari eða leiðbeinandi í grunnskóla sem hefur ekki sérmenntað sig að kenna stærðfræði eða hefur ekki brennandi áhuga á stærðfræði mun ekki ná að gera efninu eins góð skil og smita frá sér áhuga á efninu. Þetta á ekki bara við um stærðfræði, heldur fleiri fög og þá sérstaklega íslensku.


Posted

in

by

Tags: