fbpx

Á að kenna forritun?

Ég myndi segja að það væri almennt skoðun fólks að það eigi að kenna nemendum forritun í grunnskóla. Rökin sem hafa verið færð fyrir því eru meðal annars að það sé nauðsynlegt, því tölvur eru framtíðin. Einnig hefur verið talið að það að kenna nemendum að forrita auki færni þeirra í stærðfræði og tungumálum.

Á að kenna forritun

En það sem allir þurfa að átta sig á, er að það sem kallað er forritun á grunnskólastigi er yfirleitt ekki alvöru forritun heldur eru nemendur að draga og sleppa einingum en ekki að skrifa kóða. Sem sagt, það er ekki verið að kenna nemendum að kóða eins og þeir sem vinna við forritun eru að gera. En það er líka allt í lagi.

En eins og ég sagði í upphafi, þá hefur því oft verið haldið fram (og ég trúði því sjálf) að það að læra að forrita myndi bæta færni nemenda í stærðfræði og tungumálum. En svo er víst ekki skv. rannsókn sem gerð var af MIT. Þau svæði í heilanum sem styrkjast við það að forrita eru ekki sömu svæðin og tengjast stærðfræði og tungumálum.

En þó svo að læra að forrita (í alvöru) auki ekki færni nemenda í stærðfræði og tungumálum, þá er samt eitt sem hefur áhrif á þá færni og það er að læra á hljóðfæri. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem gerð var við háskólann í Zurich.

Það sem er svo jákvætt að heyra og kom fram í þessari rannsókn, er að nemendur sem læra á hljóðfæri þegar þeir eru ungir ná að halda þessum tengingum í heilanum þrátt fyrir að þeir hætti að læra á hljóðfæri og því fyrr sem nemendur byrja að læra á hljóðfæri, því betra.

En á að kenna forritun í grunnskóla? Já, af hverju ekki! Mér finnst líka allt í lagi að það sé kallað forritun þó svo að nemendur séu bara að “draga og sleppa”, það byggir kannski upp jákvætt viðhorf gagnvart forritun og eykur líkur á því að nemendur hafi áhuga á að kynna sér alvöru forritun seinna meir.

Hefur unglingurinn þinn lært forritun í grunnskóla? Ef svo er, veistu hvers konar forritun?

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari (og reyndar tölvunarfræðingur líka!)
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: