iPad í kennslu – já eða nei?
Það er mismunandi eftir skólum hvar þeir standa í tæknimálum. Í sumum skólum og sveitarfélögum eru allir nemendur á unglingastigi (og jafnvel miðstigi) með iPad, aðrir með Chromebook fartölvur og svo eru skólar sem eru illa tækjum búnir og eru enn með takmarkað magn af tölvum eða tækjum sem þeir samnýta með öllum skólanum.
Ég hef reynslu af því að hafa ungling í skóla þar sem notaðir voru iPadar annars vegar og svo skóla sem notaðar voru Chromebook fartölvur hins vegar. En yfirleitt er það þá þannig að hver nemandi hefur sitt eigið tæki sem hann notar í skólanum og tekur með heim. Í grunninn þá er tilgangur þessarar tækja mjög svipaður: nemendur geta sótt, unnið og skilað verkefnum í Google Classroom umhverfinu. En það er það eina sem þessi tæki eiga sameiginlegt.
Svo ég segi það bara strax og skýrt, þá er ég ekki hlynnt notkun á iPad í kennslu, en ég er aftur á móti hlynnt notkun Chromebook fartölva.
iPad er samfélagsmiðlatæki
Reynsla mín og þeirra foreldra sem ég hef verið í samskiptum við er sú að það er mjög mikil togstreita í kringum iPadinn. iPadinn er nánast stór sími, það er hægt að gera svo mikið skemmtilegt í þessari græju að það er erfitt að nota hana líka undir nám. Unglingurinn þarf alltaf að hafa iPadinn, því hann þarf að læra. En á móti er svo mikið spjall og annað áreiti í gegnum þetta tæki að meirihluti tímans fer í eitthvað annað en lærdóm. Það er því nánast ómögulegt fyrir nemandann að aðgreina hvenær hann ætlar að nota tækið í lærdóm og foreldrar eiga erfiðara með að stjórna notkun tækisins þar sem nemandinn þarf að geta lært og skilað verkefnum.
Það sama er ekki á teningnum varðandi Chromebook fartölvurnar. Þær eru vinnutæki, nemendur nota þær til að vinna verkefni og þegar heim er komið þá eru þessi tæki eingöngu notuð í lærdóm. Það koma stundum verkefni þar sem þarf að taka upp myndband eða annað sem ekki er hægt að gera í Chromebook fartölvunum og í þeim tilfellum er alltaf hægt að notast við síma nemenda.
Skólum ber að kenna fingrasetningu
Skv. aðalnámskrá grunnskólanna ber skólum að sjá til þess að nemendur nái góðri færni í fingrasetningu. Það er ekki hægt að kenna fingrasetningu með iPad. En fáir foreldrar vita kannski að við lok 4. bekkjar eiga nemendur að geta beitt undirstöðuatriðum í fingrasetningu og við lok 7. bekkjar eiga nemendur að geta notað rétta fingrasetningu.
Það er eflaust mjög mismunandi eftir skólum hversu mikið þeir þjálfa upp þessa færni. En þar sem unglingurinn minn var með Chromebook fartölvuna var mjög mikið lagt upp úr að nemendur næðu góðum hraða og voru nemendur að æfa nánast daglega fingrasetninguna.
Það er ótrúlega dýrmætt (og sparar mikinn tíma) að fara inn í framhaldsskóla með mjög góð tök á fingrasetningu eins og gert er ráð að fyrir nemendur læri í grunnskóla.
Líkamsbeiting við notkun iPad
Ég hef rætt bæði við sjúkraþjálfara og kírópraktora og mjög fljótlega eftir innleiðingu spjaldtölva varð mikil aukning í vandamálum sem tengjast vinnu nemenda með iPad. Í sumum skólum mega iPadarnir alls ekki vera uppreistir, því kennarinn vill sjá á skjáinn hjá öllum nemendum, en það þarf engan sérfræðing til að sjá að sú líkamsbeiting að sitja við borð og þurfa að horfa lóðrétt niður á iPad getur haft slæmar afleiðingar fyrir alla – og sérstaklega ungmenni sem eru að vaxa og stækka.
Ef unglingurinn þinn er að kvarta undan verkjum í hálsi eða vöðvabólgu, þá hvet ég þig til að leita til sérfræðings sem getur komið með æfingar og tillögur að lausnum til að bæta líðan.
Núna er ég forvitin!
Hvaða tæki eru í skólanum sem þitt barn eða unglingur er í? Hverjir myndir þú að segja að væru helstu kostir og gallar við það tæki? Kann unglingurinn þinn fingrasetninguna? Er hann reglulega að æfa sig (án þess að sjá á lyklaborðið)?
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is