fbpx

Niðurstaða innritunar, hvað svo?

Á fimmtudaginn lauk innritun fyrir 10. bekkinga í framhaldsskóla. Eins og alltaf, þá eru margir sem fengu ekki inngöngu í skólann sem þeir völdu sem fyrsta val og svo eru líka alltaf einhverjir sem fengu ekki inngöngu í fyrsta og annað val og fengu þá úthlutað skóla.

Niðurstaða, hvað svo
Niðurstaða innritunar í framhaldsskóla, hvað svo?

Ef þú átt ungling sem fékk úthlutað drauma skólanum sem hann setti í fyrsta val – þá vil ég óska þér og honum innilega til hamingju með það!

Ef þú átt ungling sem er ósáttur við niðurstöðuna, fékk annað hvort annað val eða jafnvel úthlutað skóla, þá er þessi póstur sérstaklega fyrir þig.

Það næsta í stöðunni er að sætta sig við niðurstöðuna, en samt með það viðhorf að þetta er ekki endilega endanleg niðurstaða og það er enn von að komast inn í drauma skólann ef það skiptir hann mjög miklu máli.

Ég veit um mörg dæmi þar sem unglingar fengu ekki fyrsta val, sættu sig við það og byrjuðu í skólanum sem þeir fengu úthlutað. Þrátt fyrir að hafa ekki verið sáttir til að byrja með þá hafa margir þeirra endað mjög sáttir með valið strax eftir fyrstu önnina og jafnvel glaðir að hafa ekki fengið fyrsta val. Það er því alltaf möguleiki á að unglingurinn þinn eigi eftir að vera mjög sáttur og blómstra í skólanum sem honum var úthlutað, þrátt fyrir að það sé eitthvað sem hann er mjög ósáttur með núna.

Svo veit ég um dæmi þar sem nemendur voru ósáttir, byrjuðu í skólanum sem þeir fengu úthlutað og fundu sig engan vegin þar. Í þeim tilfellum vil ég benda á að það er hægt að færa sig yfir í drauma skólann, meira að segja þó að það sé Versló eða Kvennó.

Ég veit nefnilega um nokkur dæmi þar sem nemendur byrjuðu í öðrum skólum, tóku fullan þátt í náminu með það markmið að færa sig yfir í annan skóla. Með þetta viðhorf eru nemendur að sinna náminu til að fá þá áfanga sem þeir taka metna í nýja skólanum.

Staðreyndin er nefnilega sú að það eru alltaf einhverjir sem hætta, hvort sem það er strax um áramótin eða næsta haust. Það er því hagur skóla, sérstaklega með bekkjarkerfi að fylla í skarðið og því taka þeir inn nemendur á miðju skólaári. Þessir nemendur eiga þá kost á að komast beint inn í bekk með jafnöldrum og útskrifast á sama tíma og þeir.

Ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi þetta eða bara eitthvað sem þú telur að ég geti aðstoðað eða svarað – hikaðu ekki við að senda mér póst með því að senda mér tölvupóst.


Posted

in

by

Tags: