Hefuru heyrt talað um Ikea áhrifin (e. Ikea effect)?
Þar er verið að vísa í rannsókn sem var gerð fyrir um 11 árum þar sem fundið var út að fólk metur hluti meira ef það hefur haft fyrir því að búa hann til.
Bein vísun í Ikea er vegna þess að þegar þú kaupir húsgögn hjá þeim, þá þarftu alltaf að setja þau saman. Við það eitt að setja þau saman, þá þykir þér vænna um hlutinn eða þér finnst hann meira virði.
Ég tengi ekki alveg við þetta Ikea dæmi, ég get ekki sagt að mér þyki neitt sérstaklega vænt um Billy hillurnar mínar á skrifstofunni – en ég tengi mjög mikið við þetta þegar kemur að prjónaskap og garðræktun.
Ef ég prjóna mína eigin peysu, þá finnst mér hún miklu verðmætari en einhver peysa sem ég kaupi út í búð og þarf ekkert að hafa fyrir því að prjóna. Ég losa mig síður við peysur sem ég hef prjónað en það er ekkert mál fyrir mig að láta frá mér aðrar peysur.
Það er eins með ræktun. Ef ég er að rækta salat út í garði sem sem ég þarf að fylgjast vel með og hlúa að, þá kann ég miklu betur að meta það salat heldur en saltið í salat boxinu sem ég kaupi út í búð.
Ef þú átt ungling, þá hefur þú líklega tekið eftir því að unglingurinn þinn kann betur að meta það sem hann hefur keypt með sínum eigin peningi – heldur en eitthvað sem hann fékk gefins án þess að þurfa að leggja neitt á sig.
Hvernig getum við foreldrar nýtt okkur þessa rannsókn? Jú, t.d. ef unglingurinn þinn er alltaf að kvarta yfir hvað sé í matinn eða að maturinn sé ekki nógu góður, þá virkar vel að láta hann annað hvort sjá alveg um að elda matinn, eða biðja hann að aðstoða með matinn. Það undarlega vill nefnilega til að unglingnum finnst maturinn þá oft miklu betri.
En getum við eitthvað nýtt okkur þetta í stærðfræði eða tengt þetta stærðfærði?
Nei, en ég veit að því meira sem nemendur leggja á sig að læra ákveðið efni, því ánægðari verða þeir með sjálfan sig og verkefnið eða prófið sem þeir gerðu.
T.d. ef nemandi A vinnur ákveðið heimaverkefni, sem er bara að svara krossaspurningum en hann leggur mikla vinnu á sig til að fara vel í efnið, svara eftir bestu getu. Þá mun þessi nemandi A meta einkunnina 10 mikils – því hann vann svo vel fyrir henni.
Aftur á móti nemandi B sem fær bara að herma eftir og les ekki einu sinni spurningarnar og undirbýr sig ekkert fyrir verkefnið, hann mun líklega ekki verða eins stoltur af sjálfum sér og verkefninu, þó svo að hann fái 10 í einkunn.
Ef þú vilt að unglingurinn þinn kunni að meta aðeins meira það sem hann er að fá – þá er gott að athuga hvort hægt sé að láta hann hafa aðeins fyrir því, t.d. með því að vinna sér það inn með einhverjum hætti.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
Hjá stærðfræði.is