Ég hef áður vitnað í Angelu Duckworth (sem skrifaði bókina Grit), en hún var spurð “Hvaða ráð gefur þú nemendum sem kemur þeim á óvart”.
Hún svaraði að nemendur væru alltaf jafn hissa þegar hún segir þeim að herma eftir öðrum. Ekki herma þannig að þeir séu að svindla, heldur skoða hvað aðrir hafa gert eða hvernig þeir vinna og nýta sér það.
Skv. rannsóknum sem hafa verið gerðar, þá er hermun ein af fljótlegustu leiðunum til að læra. Angela sagði síðan frá því hvernig hún sjálf bar sig við að nota hermun þegar hún var að skrifa sína fyrstu vísindagrein. Hún safnaði saman greinum sem henni fannst vel unnar og áhugaverðar, las þær yfir og skrifaði hjá sér hvernig hún gæti unnið og byggt upp sína vísindagrein.
Án þess að gera mér grein fyrir því, þá notaði unglingurinn minn mikið þessa aðferð, sem var miklu fljótari og skilvirkari en aðrar aðferðir sem margir hefðu hugsanlega notað.
Þegar hann var í 9. bekk þá skrifaði hann sína fyrstu heimildaritgerð. Nemendur fengu að vinna ritgerðina í nokkrum skrefum og enduðu með mjög góða ritgerð sem var búin að fara í gegnum nokkrar leiðréttingar hjá kennara.
Eftir þessa ritgerð, þá hefur hann alltaf skoðað og “hermt” eftir uppsetningu á þessari einu ritgerð sem hann vissi að væri mjög góð og athugasemdarlaus.
Hvaða unglingur kannast ekki að spyrja þegar hann er að skrifa ritgerð:
– Hvernig á inngangurinn að vera, hvað á hann að vera langur og má ég nota “ég” í innganginum?
– Hvernig er kaflaskiptingin, hvað á að vera inndregið og hvenær?
– Hvernig eru aftur lokaorðin, hvað má segja í þeim?
– Hvernig er heimildaskráin, hvernig er hún mismunandi eftir tegund heimildar?
– Hvernig er vísað í ólíkar heimildir?
Í stað þess að fara í einhverja fræðilega bók og reyna að finna þetta út og skilja hvað átt er við, þá greip unglingurinn minn alltaf í þessa einu sömu ritgerð og “hermdi” eftir hvernig hann hagaði uppsetningu og vísaði í heimildir – með frábærum árangri.
Hefur þinn ungingur nýtt sér hermun án þess að gera sér grein fyrir því, með góðum árangri?
Ef svo er, þá væri æðislega gaman að heyra frá því!