fbpx

Hvernig er best að bregðast við

Þegar ég var í menntaskóla, þá var ég með íslenskukennara sem brást öðruvísi við en aðrir kennarar, þegar það var mikill hávaði og skvaldur í tímum. Í stað þess að hækka róminn til að ná til nemenda þannig, þá lækkaði og lækkaði hann róminn, þar til að hann nánast hvíslaði. Það varð til þess að þessir örfáu nemendur sem voru virkilega að hlusta á hann þurftu að biðja aðra nemendur um að “þegja” svo þeir heyrðu í kennaranum.

Hvernig er best að bregðast við

Þessi aðferð virkaði og það var ekki oft sem kennarinn þurfti að hvísla.

Önnur leið til að ná til nemenda í tímum þar sem það er mikið skvaldur, er þessi hefðbundna leið, að hækka og hækka róminn, sem endar yfirleitt í því að kennarinn þarf að klappa saman höndum eða kalla eitthvað hátt yfir bekkinn til að ná sambandi við nemendur.

Mér er oft hugsað til þessa kennara þegar ég hugsa um hvernig sé best að bregðast við aðstæðum tengdum kennslu.

Á tímabilinu ágúst til nóvember 2023, þá ræddu fulltrúar SamSTEM verkefnisins við kennara í stærðfræði og skyldum fögum í 24 framhaldsskólum. Niðurstöður þeirra viðtala leiddu í ljós að stór hópur framhaldsskólanema á núna erfitt með að lesa samfelldan texta í stærðfræði og skyldum fögum.

Hvernig er best að bregðast við þeim breytingum? Eins og framhaldsskólakennarar hafa brugðist við því, er að einfalda og aðlaga texta fyrir nemendur og fara yfir minna efni.

Það þarf ekki mikinn sérfræðing til að sjá að sú leið er ekki vænlegust. En hvað annað er hægt að gera?

Besta leiðin til að þjálfa nemendur í að lesa samfelldan texta í stærðfræði, að mínu mati, er að láta þá æfa sig í að lesa meiri samfelldan texta í stærðfræði. Þegar samræmdu prófin í stærðfræði voru lögð fyrir nemendur, þá gafst þeim mjög gott tækifæri á að æfa sig í að lesa samfelldan texta, þar sem stærstur hluti prófsins voru orðadæmi. Ég er sannfærð um að það eitt að undirbúa nemendur fyrir samræmdu prófin hefur haft mjög jákvæð og góð áhrif á nemendur hvað þetta varðar.

En það að lesa samfelldan texta í stærðfræði er ekki bara góð æfing í því að lesa samfelldan texta, því algengasta spurning sem stærðfræðikennarar fá er nefnilega “hvenær á ég eftir að nota þetta í framtíðinni?”. Það að leggja fyrir samræmt námsmat í stærðfræði, þar sem stærsti hluti prófsins er að lesa orðadæmi er einnig frábær leið fyrir nemendur að átta sig á að stærðfræði er einmitt notuð til að leysa verkefni sem eru ekki bara tölur og bókstafir.

Er eitthvað sem þú vilt bæta við? Eða eitthvað sem þú vilt deila með mér?
Ég hef fengið frábærar tillögur um bækur og hlaðvörp sem ég vissi ekki af, svo ef þér dettur eitthvað í hug sem tengist hugarfari, kennslu eða stærðfræði – hikaðu ekki við að smella á svara við þessum pósti og deila því með mér.


Posted

in

by

Tags: