Pýþagóras var stærðfræðisnillingur, eða svo er alla vega sagt. Hann er sagður hafa verið fyrstur til að sanna reglu sem er kennd við hann og hægt að nota til að finna eina óþekkta hlið í rétthyrndum þríhyrningi ef tvær hliðar eru gefnar. Nemendur í 10. bekk fá flestir að kynnast þessari mögnuðu reglu og jafnvel gera sumar stærðfræðibækur ráð fyrir að nemendur geti “fattað sjálfir” reglu Pýþagórasar – en það er efni í annan póst.
En hver var þessi Pýþagóras?
Pýþagóras var uppi í kringum 570-490 f.Kr. Faðir hans fór til spákonu áður en hann fæddist, sem sagði honum að hann væri að fara að eignast son sem yrði framúrskarandi bæði hvað varðar gáfur og andlegt atgervi.
Pabbi Pýþagórasar varð mjög spenntur og sá til að þessi gáfaði drengur fengi bestu menntun sem völ væri á. Fjölskyldan flutti til Samos, sem er eyja í Eyjahafi ekki langt frá Litlu Asíu og þangað komu mikið af vitrum mönnum til að fræða Pýþagóras.
Þegar Pýþagóras varð eldri ferðaðist hann mikið til að auka við þekkingu sína og á einu ferðalagi sínu í Egyptalandi lenti hann í miðjum stríðsátökum þegar Persakonungur hertók Egyptaland. Pýþagóras var handtekinn og fluttur til Babýloníu þar sem hann kynntist vísindum persneska presta en þeir voru mjög framarlega á sviði stærðfræði og stjarnfræði.
Eftir að hann losnaði úr prísundinni fór hann aftur heim til eyjarinnar Samos. Þar varð hann fyrir miklum vonbrigðum með stjórnarhætti harðstjórans Pólýkratesar sem hafði heldur betur hert tökin meðan hann hafði verið í burtu. Pýþagóras gat ekki hugsað sér að vera undir þessum stjórnarháttum og flúði til Krótónu sem er á Suður-Ítalíu og settist þar að.
Á þessum nýja stað var vel tekið á móti honum og þar stofnaði hann heimspekiskóla og bræðralag sem vakti gríðarlega miklar vinsældir. Þeir sem sóttu skólann voru kallaðir Pýþagóringar og þar á meðal voru konur, sem var mjög óvanalegt á þessum tíma.
Virðing Pýþagóringa var mikil og höfðu þeir einnig sterk ítök á pólitíska sviðinu. Þeir komu að því að setja lög bæði í Krótónu og í nágrannaborgunum. Þeir voru á móti stjórnarfari þar sem leiðtogahlutverkið var í höndum sjálfskipaðra stjórnarherra, sem deildu og drottnuðu í krafti auðæfa og valda. Pýþagóringar komu á réttlæti og frelsuðu borgir á Ítalíu undan harðstjórum og lögðu grunninn að lýðræði. Á þessum tíma hefur almúginn líklega ekki haft neina þekkingu á pólitík og talið er að það stjórnarfar sem Pýþagóringar aðhylltust hefði verið með þeim hætti að ábyrgð væri hjá þeim mönnum sem væru hæfastir að stjórna sem væru einnig í nánum samskiptum við alþýðu manna og hefðu hag þeirra að leiðarljósi.
Sögur eru til af því að margir auðkýfingar hafi sannfærst af boðskap þeirra og lagt niður völd sín og deilt auðæfum með borgarbúum. En það kom þó að því að mjög auðugur maður vildi fá að komast inn í skólann hans Pýþagórasar – á þeim forsendum að hann væri auðugur. Markmið hans með inngöngu í skólann var líklega ekki til þess að fræðast um stærðfræði heldur til þess að fá pólitískt vald. Inngöngu hans var hafnað og það er talið vera vendipunktur í ofsóknum efnamikilla manna á hendur Pýþagóringum. Samkomuhús þeirra voru brennd og þeir neyddust til þess að flýja til Metapontum.
Pýþagóringar náðu sér aftur á strik en nokkrum árum síðar magnaðist andstaða gagnvart þeim aftur, samkomuhús þeirra voru brennd og mikilvægir leiðtogar Pýþagóringa hurfu af yfirborði jarðar…
Þegar ég er að skrifa þetta þá sé ég óneytanlega ákveðna samsvörun við það sem er að gerast í heiminum í dag þar sem valdamiklir og gráðugir einstaklingar eru hræddir við lýðræðið og vilja vera við stjórn sem einkennist af græðgi og siðblindu…
Ég er afskaplega fegin að vita til þess að Pýþagóras heimilaði konum að koma í skólann sinn, sem eins og áður kom fram var ekki algengt á þessum tíma og hugsjón Pýþagóringa var að láta þá hæfu stjórna sem hefðu hag alþýðufólks að leiðarljósi. Þessi Pýþagóras var því ekki einungis fyrstur til að sanna mikilvæga reglu heldur var hann frábær gaur í alla staði 🙂
Finnst þér mikilvægt að í stærðfræðikennslu sé ekki einungis kennd fræðin, heldur líka fjallað einstaklingana um sem gerðu miklar uppgötvanir?
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is