Umræðan síðustu vikur í tengslum við menntamál hefur líklega ekki farið fram hjá þér. Þangað til annað kemur í ljós, ætla ég að láta mig dreyma um að eftir þrjú til fjögur ár verði komin drög að kerfi sem heldur vel utan um stöðu nemenda, frábært kennsluefni sem styður við námskránna, samræmt matskerfi sem er hvetjandi og gagnsætt fyrir nemendur og foreldra, og svo kerfi til að bregðast við niðurstöðum matskerfanna (það er ekki nóg að mæla).
Síðan veit ég að það er stefna ráðherra að innan nokkurra ára verði allir framhaldsskólar skyldugir til að taka við öllum nemendum úr grunnskóla (ekki bara þeim sem ná B eða hærra í kjarnafögunum), sem mun þá lengja aftur framhaldsskólann óformlega í 4 ár.
En þangað til, eru samt sem áður nokkur ár. Það er bara staðreynd. Ef þú átt ungling í grunnskóla í dag, þá mun hann líklega útskrifast úr grunnskóla, áður en þetta verður að veruleika.
Ef þínum unglingi líður vel og hann er sáttur í skólanum, þá er ekkert sem þú þarft að gera. Það skiptir ekki máli fyrir alla unglinga að ná að klára grunnskólaefnið í stærðfræði, íslensku og ensku (fá B eða hærra) eða komast inn í ákveðna skóla.
En ef unglingurinn þinn upplifir mikinn kvíða og hefur miklar áhyggjur af því að fá ekki B í lokaeinkunn í stærðfræði í 10. bekk, þá er einkum tvennt sem þú getur gert. Þetta tvennt er þó háð því að unglingurinn þinn sé með ágætis grunn í stærðfræði, sé tilbúinn að taka fulla ábyrgð á eigin námi og sé tilbúinn að leggja á sig auka vinnu.
Fyrra atriðið sem þú getur gert, er að þú og unglingurinn þinn getið hitt stærðfræðikennarann og fengið ráð hjá honum hvað þurfi að gera til að fá örugglega B í lokaeinkunn. Ef unglingurinn þinn tekur verkefni eða próf og nær ekki B, þá þarf að passa að hann fái tækifæri að taka bætingapróf og leiðsögn hvernig sé best að undirbúa sig undir það. Síðan er mikilvægt að halda reglulegu og góðu sambandi við stærðfræðikennarann til að tryggja það að unglingurinn þinn endi með B í lokaeinkunn.
Annað sem hægt er að gera, er að skrá unglinginn í fjarnám í stærðfræði og klára seinni áfanga á þrepi 1 í stærðfræði. Ef að unglingurinn þinn klárar þann áfanga meðan hann er enn í grunnskóla, þá mun hann sannarlega hafa lokið þrepi 1 í grunnskóla, sama hvað skólaeinkunnin segir. Það þarf að passa sérstaklega vel að þessir áfangar séu seinni fyrsta þreps áfangi í stærðfræði. Í FÁ heitir þessi áfangi STÆR1GR05 og í FG heitir þessi áfangi STÆR1aj05.
Ef unglingurinn þinn er mjög sterkur námslega séð og langar að komast inn í skólana með mestu aðsóknina, þá mæli ég með því að hann skrái sig í áfanga í fjarnámi í stærðfræði sem er á þrepi 2. Það þýðir að hann er kominn lengra en aðrir nemendur í grunnskóla og ætti því að jafngilda því að hafa náð A í grunnskóla.
Það hefur mikið verið rætt um kvíðann sem samræmdu prófin höfðu á nemendur. Vissulega voru nemendur stressaðir fyrir þessi próf, en það var líka “stemming” og hvetjandi fyrir nemendur að læra fyrir þessi próf. Margir nemendur fengu mikinn kraft og fengu allt í einu áhuga á stærðfræði með því að læra fyrir þessi próf. Kannski var það vegna þess að þessi próf voru að mestu leyti orðadæmi og því hægt að leysa þau á ólíkan og skemmtilegan hátt.
Vissulega fór kvíðinn við að taka samræmt próf, þegar þau próf voru lögð niður. En það sem kom í staðin fyrir samræmdu prófin var gríðarlegur kvíði hjá stórum hópi nemenda við það að ná ekki B (og komast þá ekki beint í framhaldsskólastærðfræði) eða að fá ekki B+ eða A til að komast inn í ákveðna skóla. Ég hef ekkert fyrir mér í þessu en ég held að vanlíðan og kvíði nemenda að vita ekki alveg hvar þeir standa fyrr en við lok 10. bekkjar sé miklu meiri en kvíðinn sem fylgdi því að taka samræmd próf (sem hægt var að fá undanþágu frá því að taka).
Ef þú átt ungling á leið í 10. bekk sem myndi vilja skrá sig í fjarnám til að klára grunnskólastærðfræðina, þá gæti hann skráð sig í fjarnám á þessari önn eða næstu önn. Ef þú átt ungling í 8. eða 9. bekk, sem upplifir einkunnakvíða, þá mæli ég með því að þú sért í góðu sambandi við stærðfræðikennarann til að vita nákvæma stöðu hans og geta aðstoðað hann við að bregðast við ef með þarf.