fbpx

Hugsandi kennslustofa

Stærðfræðikennslan hefur almennt ekki mikið breyst í grunn- og framhaldsskólum síðustu ár. Flestir kennarar eru með einhverja innlögn á töflu fyrir alla nemendur og ganga síðan á milli til að aðstoða, en þó er líka algengt að nemendur hafi aðgang að kennslumyndböndum og nota stærðfræðitímana í að fá aðstoð frá kennara. En það er ný aðferð sem er að ryðja sér til rúms í grunn- og framhaldsskólum landsins. Aðferðin kallast hugsaðndi kennslustofa (e. thinking classroom).

Hugsandi kennslustofa


Í grunninn má segja að hugsandi kennslustofa gangi út á að:

  1. Nemendur fá krefjandi verkefni sem ekki er hægt að leysa án þess að hugsa, rökræða, rannsaka, prófa sig áfram o.s.frv.
  2. Í upphafi kennslustundar er dregið í litla hópa og mikilvægt að nemendur sjái að það sé gert á handahófskenndan hátt.
  3. Nemendur vinna verkefni standandi við tússtöflu, það er einn túss á hvern hóp og hann látinn ganga á milli.

Síðan eru 11 önnur atriði sem upphafsmaður þessarar aðferðar skilgreinir, en þessi efstu þrjú eru þau helstu.

Mér skilst á þeim sem hafa innleitt þessa aðferð að það sé mikilvægt að það sé gert þannig að allir tímar séu með þessu fyrirkomulagi. Þá vita nemendur nákvæmlega hverju þeir ganga að og byrja strax að vinna í hverjum tíma.

Ég hef síðustu ár sjálf verið að beyta einhverskonar útfærslu af þessari aðferð fyrir einstaka nemendur í einstaka tilfellum, þegar ég kenni í kennslustofu.

Reynsla mín hefur sýnt að það hentar t.d. mörgum nemendum, sem eiga erfitt með að sitja og einbeita sér, að fá frekar verkefni upp á töflu til að vinna. Ég hef verið svo heppin að hafa kennslustofur sem eru með tússtöflur á öllum veggjum og því auðvelt að útfæra þetta án þess að aðrir nemendur séu mikið að velta fyrir sér hvað nemandinn er að gera. Einnig hef ég látið tvo nemendur vinna saman að því að leysa verkefni á töflunni.

Besta leiðin að mínu mati til að læra stærðfræði, er að innleiða og kenna nemendum að tileinka sér rannsóknarhugarfar þegar þeir takast á við verkefni í stærðfræði. Þar skiptir hraði engu máli og það er fínt að fá villur, því það er vísbending að þeir séu að læra eitthvað nýtt. Þetta er einmitt það sem hugsandi kennslustofa gengur út á.

Mér finnst þessi kennsluaðferð frábær og ég veit um kennara bæði í grunn- og framhaldsskóla sem hafa innleitt þessa aðferð í sína stærðfræðikennslu og verið í skýjunum með árangurinn.

En spurning sem ég velti samt fyrir mér er, hentar þessi aðferð öllum?

Ef ég hugsa um mig sjálfa sem nemanda í grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla, þá var ég þannig nemandi að ég gat bara ekki hugsað stærðfræði með fólk í kringum mig. Ég þurfti að fá að hugsa og leysa verkefni í stærðfræði í friði heima hjá mér.

Margir nemendur eiga erfitt með að mæta í skóla af því að það er verið að pína þá í allskonar hópavinnu þar sem þeim líður illa? Hentar þeim að vinna eftir hugmyndafræði hugsandi kennslustofu?

Er þessi aðferð að skila betur undirbúnum nemendum í framhaldsskóla og svo háskóla? Hvað myndi t.d. gerast ef þessi aðferð yrði innleidd í MR, þar sem (haft eftir stærðfræðikennara í MR) kennslan hefur nánast ekkert breyst í 100 ár?

Eins og staðan er í dag, þá skilst mér að um helmingur nemenda í læknisfræði komi úr MR. Myndi þessi aðferð, hugsandi kennslustofa, skila betur undirbúnum nemendum úr MR yfir í Háksólana? Eða myndi sú breyting kannski hafa þau áhrif að nemendur myndu síður sækja um í þennan skóla ef þeir vissu að þar væri verið að vinna eftir hugsandi kennslustofu? Hvers vegna eru nemendur sem koma þaðan betur undirbúnir undir háskólanám en nemendur úr öðrum framhaldsskólum? Er það vegna þess að kennslan í MR er svona æðisleg eða er það vegna þess að þeir sem ætla að fara í læknisfræði, verkfræði eða stærðfræði sækja frekar um í MR?

Það sem ég er að velta fyrir mér í þessum skrifum er, að sú aðferð sem er best, verður samt líklega aldrei besta aðferðin fyrir alla. En sú aðferð sem við veljum að nota verður samt sem áður að ná til allra (ef það er hægt) og við verðum líka að hafa einhverjar sannanir fyrir því að aðferðin sé að skila betur undirbúnum nemendum undir frekara nám.

Átt þú barn eða ungling sem er í stærðfræðitímum þar sem unnið er eftir hugsandi kennslustofu? Ef svo er, þá langar mig mjög mikið að fá að vita hvernig þú upplifir þessa kennsluaðferð og hvort hún er að henta þínu barni eða unglingi. Sem sagt, smellu endilega á svara þessum pósti og deildu því með mér.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: