Í dag langar mig að skrifa um heimavinnu í stærðfræði. Þrátt fyrir að það sé nánast búið að útrýma heimavinnu í grunnskólum á Íslandi, þá er ég fylgjandi heimavinnu í stærðfræði.
Helsta ástæðan er sú að stór hluti nemanda nær ekki að hugsa með mikið áreiti í kringum sig og stærðfræði er sú námsgrein sem krefst mikillar hugsunar. Í þrjátíu manna bekk, þar sem aðgreiningar eru engar, er sjaldnast vinnufriður og eina tækifærið til að hugsa er heima. Hérna tala ég af eigin reynslu, í minningunni náði ég ekki að vinna neitt sem tengist stærðfræði skólanum og þurfti að gera allt á eigin spýtur heima, þar sem enga aðstoð var að fá.
Önnur ástæða fyrir því að ég er fylgjandi heimavinnu, er að mér finnst að það eigi að vera meiri tenging milli heimils og skóla. Ég vil vita hvað unglingurinn minn er að gera í skólanum og það endurspeglast mikið í þeim verkefnum sem hann er að vinna heima. Þannig er auðveldara fyrir foreldra að bregðast við ef unglingurinn á sýnilega í erfiðleikum með ákveðið efni.
En hvað er heimavinna?
Heimavinna er eins og orðið gefur til kynna, vinna sem nemendur vinna heima hjá sér. Í einhverjum tilvikum eru það þó verkefni sem einhverjir nemendur geta klárað í skólanum en aðrir, sem þurfa meiri tíma eða betri vinnufrið, klára heima.
Til hvers er heimavinna?
Þegar kennarar eru spurðir hvers vegna þeir leggja fyrir heimavinnu, þá er svarið yfirleitt að heimavinna sé tækifæri fyrir nemendur að kanna skilning sinn, læra af mistökum og finna hvað þeir þurfa aðstoð með.
Ef nemendur eru aftur á móti spurðir um tilgang heimavinnu, þá svara þeir oftast að það sé svo kennarinn geti merkt við hvort þeir hafi unnið heima og sú heimavinna er þá hluti af einkunn. Ef nemendur eru spurðir fyrir hverja heimavinnan sé, þá svara þeir oftast að þeir séu að vinna heimavinnuna fyrir kennarann.
Það sem kom ekki fram í þessari rannsókn er viðhorf foreldra til heimavinnu, en ef ég tala fyrir mig sjálfa, þá finnst mér heimavinna vera tækifæri fyrir foreldra að fylgjast með því sem nemandinn er að gera í skólanum og átta sig á því hvort að hann eigi í erfiðleikum með efnið og þurfi aðstoð.
Almennt um heimavinnu
Ef kennarar eru spurðir út í heimavinnu nemanda, þá kemur í ljós að þeir nemendur sem vinna alltaf heimavinnuna samviskusamlega eru þeir sem þurfa ekki að vinna heima, og þeir nemendur sem sleppa að gera heimavinnu eru þeir nemendur sem þurfa hvað mest á því að halda að vinna heima.
Ef heimavinna gildir til einkunnar (kennarar skrá hjá sér hvort heimavinnan var unnin og það sé hluti af lokaeinkunn nemandans í stærðfræði) þá kemur í ljós að um 23% nemenda svindla, t.d. með því að skrifa upp svörin eftir öðrum nemendum. Ef heimavinna gildir ekki til einkunna, þá svindla einungis um 2% nemenda. En á móti kemur eru færri sem gera heimavinnuna, ef þeir þurfa þess ekki, 25% nemenda vinna ekki heimavinnu ef hún gildir til einkunnar, en 38% sleppa því að vinna heima ef hún gildir ekki til einkunnar.
En hvernig getum við haft heimavinnuna þannig að hún nýtist fyrst og fremst nemandanum og allir græða, bæði kennarar, nemendur og foreldrar?
Í grunninn skiptir mestu máli að láta nemendur taka meiri ábyrgð á eigin námi. Þeir verða að upplifa að allt sem þeir gera er fyrir þá sjálfa, svo þeir geti náð betri tökum á námsefninu.
Tillaga frá einum fræðimanni er að breyta nafninu, hætta að kalla þetta heimavinnu og nefna það frekar kannaðu skilninginn þinn verkefni. Um leið og þetta heitir kannaðu skilninginn, þá er það sterk vísbending til nemandans að þetta verkefni sé fyrir hann til að kanna hvað hann kunni og hvað hann þurfi aðstoð með.
Önnur tillaga frá þessum sama fræðimanni, er að tengja ekki verkefnin sem unnin eru heima við einkunn. Um leið og verkefnin eru tengd við einkunn, þá verður það til þess að að fjórðungur nemenda svindlar, til að þessi verkefni dragi ekki niður lokaeinkunnina.
Mín tillaga er að kenna nemendum hvernig á að bregðast við þegar þeir ná ekki að leysa verkefni sem eru hluti af kannaðu skilninginn þinn verkefnunum, sem þeir vinna heima. Fyrsta skref væri að skoða hvort að þessi verkefni séu lík þeim verkefnum sem þeir hafa áður náð að leysa og hvort það hjálpi að rannsaka þau betur. Ef þeir ná ekki að gera verkefnin, þá er mikilvægt að kenna nemendum að skrifa hjá sér spurningar til að spyrja kennarann í næsta tíma.
Mér finnst líka mikilvægt að upplýsa foreldra um kannaðu skilninginn verkefnin og hvernig þeir geta aðstoðað unglinginn sinn við að skrifa hjá sér spurningar til að spyrja kennarann í næsta tíma, ef það eru verkefni sem þeir ráða ekki við.
Er heimavinna í skólanum hjá þínum unglingi? Ef svo er, gildir heimavinnan til einkunnar? Finnst þér unglingurinn þinn græða á að læra heima? Segist hann kannski vera búinn að læra allt heima en þú hefur enga leið til að sjá heimavinnuna eða hvort hann sé búinn að skila henni? Mig langar að heyra allt sem þú hefur að segja í tengslum við heimavinnu. Ef þú vilt deila því með mér, þá máttu endilega svara þessum pósti.