Ég veit ekki hvort þú hefur verið að fylgjast með umræðunni í menntamálum síðustu vikur, en þar hefur umræðan að mestu leyti snúist í kringum slæma stöðu nemenda og hverjum það sé að kenna. Forysta kennarasambandsins og ráðherra barna- og menningarmála hafa, að mínu mati, farið í algjöra vörn í stað þess að hlusta á umræður og gagnrýni um þessi mál.

Þeir sem hafa fengið að stýra menntamálum síðustu ár hafa líklega ekki verið að standa sig og því spyr ég hvort að það væri ekki í lagi að hlusta á foreldra/forsjáraðila og prófessora við Menntavísindasvið Háskóla Íslands þegar kemur að þessum málum?
Í allri þessari umræðu ætti fókusinn að vera á nemandann. Hver er hagur nemandans?
Að mínu mati (og eftir óformleg samtöl við foreldra) gæti sá listi litið svona út:
Það er hagur nemenda að:
- Það sé samræmi í einkunnagjöf milli skóla.
Það var gerð ítarleg skýrsla árið 2020 sem staðfestir að það sé ekki samræmi í einkunnagjöf milli skóla eftir innleiðingu núverandi aðalnámskrá grunnskólanna.
- Að kennsluefni, verkefni og próf séu fagleg og styðji við aðalnámskrá grunnskólanna.
Í grunnskólum eru kennarar látnir kenna fög sem þeir hafa ekki endilega áhuga á eða sérþekkingu í, það er því nauðsynlegt að til séu gögn sem þeir geta nýtt til að tryggja gæði kennslu, verkefna og námsmats.
- Þeir viti og skilji hvar þeir standi námslega séð, hvar þeir geta bætt sig og hvernig þeir geta bætt sig.
Eins og staðan er í dag, þá er mjög ógagnsætt hvernig nemendur standa og á endanum oft ansi huglægt mat hvort nemendur nái B í lokaeinkunn eða ekki.
- Það sé eftirlit með skólum og nemendur geti treysti því að skólinn þeirra sé að kenna það sem hann á að vera að kenna.
Í dag er ekkert eftirlit með hvort að skólar séu að kenna og meta út frá aðalnámskrá grunnskólanna.
Að mínu mati þá ætti fókusinn að vera á nemandann og hag hans. Það er alveg hægt að treysta því að foreldrar eru svo sannarlega að hugsa um hag barna sinna þegar kemur að þessum málum.
Í skýrslu sem unnin var fyrir Menntamálastofnun árið 2022, sem ber heitið “Matsferill – Niðurstöður samráðs við skólafélagið”, þá kom fram að töluverður munur er á viðhorfi starfsfólks skóla annars vegar og svo foreldra/forsjáraðila hins vegar þegar kemur að námsmati. Hérna eru nokkur dæmi úr skýrslunni:
Forsjáraðilar eru almennt hlynntari því en starfsfólk skóla að til séu upplýsingar um stöðu einstakra skóla, stöðu skóla innan sveitarfélags og innan einstakra landshluta.
-> Foreldrar vilja vita hvernig skólarnir eru að standa sig, starfsfólk skóla vill ekki að þessar upplýsingar séu til staðar.
Meirihluti starfsfólks skóla er ósammála eða mjög ósam- mála því að „…utanaðkomandi aðili meti námsárangur nemenda til viðbótar við námsmat skólans“ en sammála því … „að skólar ættu einir að sjá um mat á námsárangri nemenda sinna“.
Meirihluti forsjáraðila er sammála því að ytri aðilar komi að námsmati barna þeirra til viðbótar við námsmat skólans.
-> Foreldrar vilja að ytri aðliar komi að námsmati barna sinna (til viðbótar námsmati skólans), en meirihluti starfsfólks skóla vill ekki fá utanaðkomandi aðila í námsmatið.
Það er því skýr vilji hjá forsjáraðilum að upplýsingar um gengi skóla séu birtar og að barnið þeirra fái utanaðkomandi óháð námsmat. En ég vil einnig að hlustað sé á sérfræðingana okkar í menntamálum hjá Háskóla Íslands.
Ég hef verið viðstödd nokkra fundi sem tengjast PISA niðurstöðunum og þar hef ég heyrt nokkra fræðimenn segja og ítreka að Matsferillinn, sé ekki að koma í stað samræmds námsmats.
Ég ætla að enda á orðum sem prófessor í stærðfræði og stærðfræðimenntun sagði á einum PISA fundinum þegar hún setti fram tillögur til að bæta stöðu nemenda í menntakerfinu:
„Það getur ekki verið að Ísland sé eina landið í heiminum þar sem sæmræmd próf eru af hinu illa“.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is