Hefur unglingurinn þinn kvartað yfir því að hann sé svo fljótur að gleyma því sem hann lærir? Hann reiknar og reiknar og svo daginn eftir þá man hann ekkert hvað hann gerði deginum áður?
Þetta er mjög eðlilegt og yfirleitt þurfum við alltaf að rifja aðeins upp, til að muna allt það sem við lærðum deginum áður. En í sumum tilfellum er nánast eins og sumir nemendur þurfi virkilega að læra efnið aftur, en það er ástæða fyrir því.
Hvers vegna gleyma sumir nemendur algjörlega því sem þeir lærðu deginum áður?
Í þessum tilfellum hafa nemendur nánast eingöngu verið að nota vinnsluminni heilans til að læra, en til þess að muna efnið daginn eftir (og lengur), þá þurfum við að læra með þeim hætti að þessar upplýsingar fari í langtímaminnið okkar.
Það eru nokkrar leiðir til að koma upplýsingum sem unglingurinn þinn er að læra hraðar í langtíma minnið:
- Ein leið er að læra efnið með því hugarfari að hann þurfi að kenna öðrum það sem hann var að læra. Hann þarf sem sagt að skilja svo vel það sem hann var að læra að hann geti farið upp á töflu í skólanum og kennt öðrum í bekknum það sem hann var að læra. Hugmyndin er ekki að fara upp á töflu að kenna, heldur læra efnið með því hugarfari að þurfa að gera það.
- Önnur leið er að tala upphátt um efnið. Þetta er yfirleitt nauðsynlegt að gera heima hjá sér, því kennslustofurnar bjóða ekki upp á að nemendur séu að tala upphátt við sjálfan sig. Það eitt að tala upphátt um efnið, gerir hugsanir okkar skýrari. Þetta sé ég t.d. í kennslustofunni þegar nemendur biðja um aðstoð. Þá byrja ég á að spyrja þá hvað þeir séu búnir að gera og um leið og þeir byrja að tala upphátt um það, þá sjá þeir oftast sjálfir hvað þeir voru að gera rangt.
- Þriðja leiðin er að taka “autt blað”, og skrifa t.d. erfiðasta dæmi dagsins efst á blaðið og fara svo í gegnum dæmið án þess að skoða kennslubókina eða glósurnar. Ef þú vilt lesa nánar um þessa aðferð, þá hef ég skrifað um hana hér.
- Fjórða leiðin er að taka örstuttar pásur annað slagið og hugsa um eitthvað allt annað í nokkrar sekúndur. Þetta hef ég þýtt sem “pásu áhrifin” og hef skrifað um það hér.
- Fimmta og síðasta leiðin er að vera með góðar glósur í reikningsbókinni, sem staðfesta að unglingurinn þinn sé að beita rannsóknar hugarfari þegar hann er að læra. Ef hann fær t.d. rangt svar, en síðan finnur út hvers vegna, þá skiptir máli að glósa það hjá þér til hliðar í bókina, t.d. með því að skrifa “Ath. muna að formerkið þarf að vera gagnstætt”. Það eitt að glósa hjá sér í reikningsbókina, minnkar líkur á því að unglingurinn þinn sé að endurtaka villurnar. Ég hef skrifað um mismunandi reikningsbækur, sem gæti verið áhugavert fyrir þig að lesa um hér.
Hefur unglingurinn þinn talað um að gleyma því sem hann var að læra? Ef svo er, þá mæli ég með því að þú veljir eina að leiðunum hérna fyrir ofan og farir með honum yfir hvernig hún virkar. Ef unglingurinn lærir að tileinka sér eitthvað af þessum leiðum, þá mun það stytta tímann sem það tekur að læra nýtt efni og hann mun muna efnið lengur. En gallinn við allar þessar leiðir er að unglingurinn þinn þarf að vera með 100% athygli. Það gengur ekki upp að vera að spjalla við vini, kíkja á símann og vera með hálfan hugann við námið á meðan verið er að nota eitthvað af þessum leiðum.
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is